Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Pavlova

Fjöldi
u.þ.b. 10 kökur
Innihaldsefni FRANSKUR MARENS 100 g eggjahvítur 85 g strásykur 85 g flórsykur VANILLU-RJÓMAKREM 250 g rjómi 50 g hvítt súkkulaði 1 stk. vanillustöng 2 g matarlím (1 blað) HINDBERJASÓSA 150 g hindber, mega vera frosin 50 g hunang (akasíu) 50 g sykur 100 g vatn
Aðferð

Pavlova. Uppskriftin dugar í u.þ.b. 10 kökur.

FRANSKUR MARENS

  1. Þeytið eggjahvíturnar á meðalhraða og bætið strásykrinum saman við í smáskömmtum til að fá betri byggingu í marensinn.
  2. Blandið því næst sigtuðum flórsykrinum varlega saman við með sleikju.
  3. Búið til 10 kökur með því að sprauta marensinum á plötu með bökunarpappír.
  4. Stráið dálitlum sigtuðum flórsykri yfir og bakið við 120°C í u.þ.b. 15-20 mín. þannig að miðjan sé ennþá mjúk.
  5. Kælið örlítið og frystið.
  6. Gera þarf ráð fyrir að koma plötunni inn í frysti. Þegar marensinn er orðinn vel kaldur má setja hann í box og geyma í frysti þar til hann er notaður.

VANILLU-RJÓMAKREM

  1. Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn.
  2. Skafið innan úr vanillustönginni og setjið saman við rjómann, hitið upp að suðu og bætið matarlíminu út í.
  3. Hellið blöndunni síðan í litlum skömmtum yfir saxað súkkulaðið og hrærið í á milli, myndið góða bindingu. Gott er að vinna blönduna aðeins með töfrasprota í restina.
  4. Hellið í skál og hyljið með plastfilmu.
  5. Geymið í kæli í minnst 3 tíma eða til næsta dags.
  6. Þegar Pavlovan er borin fram er kremið þeytt upp þar til mjúk áferð myndast og hægt er að mynda kúlur með skeið eins og ís. Setjið eina kúlu á hverja marensköku.
  7. Þennan eftirrétt er gott að bera fram með ávaxtasósu og skornum berjum.

HINDBERJASÓSA

  1. Maukið berin örlítið í skál.
  2. Búið til síróp með því að sjóða saman vatn, sykur og hunang.
  3. Hellið yfir berin og blandið vel.

 

VÍNIN  MEÐ
Hvít eftirréttavín eru upplögð með þessum rétti

Fengið úr bæklingi frá þemadögunum "Eftirréttaveisla" (PDF) Uppskrift fengin frá Hafliða Ragnarssyni, Mosfellsbakaríi
Fleiri Skyldir Réttir