Pörun sem mér sjálfum finnst æðisleg er viskí og ostar. Þar kemur háa alkóhólið sterkt inn á móti fitunni í ostinum á meðan þessi sama fita dempar og mýkir alkóhólbitið frá spíranum. Einnig kemur viskíið með skemmtilega og flókna bragðvídd og einkenni eins og hnetur, þurrkaða ávexti, reyk o.s.frv. sem skemmtilegt getur verið að leika sér með.
Reykt eyjaviskí og jafnvel Islay getur t.d. verið skemmtilegt að para saman við bragðmikla blámygluosta fyrir mjög kröftuga upplifun en á sumrin þykir mér þó gott að velja „létt“ og ávaxtarík viskí til þess að para með alls kyns ostategundum. Írsk viskí, Speyside einmöltungar og jafnvel flottir blandaðir skotar eru allt drykkir sem geta komið á óvart.
Sérrítunnuþroskuð viskí geta svo hentað frábærlega með ostum sem hafa hnetukenndan keim eins og má oft finna í vel þroskuðum hörðum ostum.

Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi