Austurrískt með grillinu

Ég grilla mikið af kjöti, fiski og pylsum á sumrin og þar af leiðandi vel ég drykkina eftir því. Þessa dagana er ég að vinna með austurrísk vín sem geta verið mjög skemmtileg, bæði rauð og hvít.

Ferskur Gruner Veltliner með sumarsalati getur svínvirkað og ef hægt er að finna slíkan sem er gerleginn eða hefur fengið örlitla snertingu við eik,  er þar komin skemmtileg pörun við grillað fiskmeti.

Rauðvín úr þrúgunni Zweigelt er svo til ýmissa lista lagt og eru oft á tíðum skemmtileg með alls kyns grilluðu kjötmeti, þó kannski síður með bragðmesta rauða kjötinu, þar sem ég færi í kröftugari kosti.

Fyrir pylsuáhugafólk mæli ég svo með að prufa þýskan eða austurrískan Riesling. Þar kemur háa sýran inn og sker sig í gegnum fituna eins og enginn sé morgundagurinn. Þarna getur fólk svo leikið sér með sætuna, allt eftir persónulegum smekk og sætunnar í pylsunum. 

 

Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi