Fyrir tíma kælitækninnar þurftu bruggarar að stunda iðju sína eftir árstíðum. Það fór vissulega eftir því hvar á jarðkringlunni brugghúsið var staðsett, en yfirleitt var of heitt yfir sumarmánuðina til þess að öruggt væri að brugga bjór þar sem hann geymist illa í hita ásamt því að mun meiri hætta er á að bjórinn sýkist af bakteríum. Af þessum ástæðum var bruggað yfir köldustu mánuðina og þessir bjórar síðan hvíldir vikum saman til þess að geta drukkið yfir sumartímann.
Einn stíll sem spratt upp af þessum ástæðum var Saison, sem upphaflega var bruggaður í sveitum Walloniu í Belgíu og í Norður – Frakklandi þar sem bjórinn var kallaður biere de garde. Saison var framleiddur af bændum og ætlaður bæði þeim og árstíðabundnu verkafólki eða saisonniers á meðan á uppskeru stóð. Sökum geymslunnar þurftu þessir bjórar að vera nokkuð háir að vínandastyrk en þó ekki svo að verkafólkið yrði óvinnufært sökum ölvunar. Einnig þurftu þeir að vera svalandi í sumarhitanum til þess að hvetja og bæta skap og þrek.
En hvað einkennir Saison bjóra? Allur gangur er á því í dag þar sem framleiðendur eru farnir að leika sér meira og meira með hráefni og viðbætur eins og krydd. Það sem einkennir hins vegar erkitýpuna er hóflega hár vínandastyrkur, áberandi gerkarakter, þó nokkur beiskja og þurr ending. Stundum er notast við Brettanomyces, gerafbrigði sem skilar af sér ákveðnum sveitakarakter sem ásamt korninu sem notast er við skapa ákveðna “rustic” stemningu í bjórnum. Þessir bjórar eru oftar en ekki frábærir með alls kyns ostum og pylsum og getur þá verið virkilega skemmtilegt að leika sér með þá bjóra sem hafa viðbætt krydd til þess að para við ákveðna osta.
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi