FRÉTTASKOT ÚR VÍNHEIMINUM
Næstum heilu ári eftir að Evrópusambandið ákvað að fara í átak til þess að auka samkeppnishæfni vína sem framleidd eru í sambandslöndunum, er ljóst að lítið hefur gerst. Þessi áætlun gekk út á það að hverju sambandslandanna var áætluð ákveðin
upphæð sem nota átti til þess að gera vínframleiðslu viðkomandi lands hæfari til þess að keppa við vín Nýja-heimsins.
Til þess var ætlast annars vegar að löndin rifu upp vínvið til þess að minnka framleiðsluna og um leið að auka gæði hennar. Einnig átti hvert land að nota hluta fjárhæðarinnar til þess að fara í markaðs og söluátak fyrir eigin vínframleiðslu.
Í júní síðastliðnum var tíminn sem ætlaður var í þetta verkefni hálfnaður og einungis um 20% þess fjármagns sem fara átti í
átakið verið nýttur í það. Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir stjórn Evrópusambandsins og ljóst að ef ekki verður búið að nýta þetta fjármagn fyrir 15. október næstkomandi þá falla þessar fjárveitingar niður.
Fjárhæðirnar sem nota átti í þetta átak eru gríðarlegar eða alls um 600 milljónir evra, eða rétt rúmir 100 milljarðar íslenskra króna. Þessari upphæð var síðan skipt á sambandslöndin í samræmi við framleitt magn vína í hverju þeirra fyrir sig. Það eru því Frakkland, Ítalía og Spánn sem fá hæstu fjárveitingarnar.
Af þessum stóru þjóðum hafa Frakkarnir verið lang duglegastir við sölu- og markaðssetningarátakið, en þeir hafa nú þegar notað rétt um 46% af því fjármagni sem þeim var ætlað. En hinar stóru þjóðirnar hafa ekki verið jafn duglegar. Spánverjar hafa eingöngu nýtt um 6% af því sem þeim bar og Ítalir eingöngu um 19%.
Þetta markaðsátak sambandsins var enn ein tilraunin til þess að stöðva gríðarlega offramleiðslu sambandsríkjanna á léttvínum sem voru ekki af þeim gæðum að þau gætu keppt við ódýr vín frá Ástralíu, Chile eða Bandaríkjunum. Þessi vín hafði sambandið áður látið aðildarlöndin eima í ódrykkjarhæfan iðnaðarspíra. Það var bara engin endanleg lausn á viðvarandi offramleiðslu. Þessi lönd eiga í dag milljónir lítra af umframbirgðum sem ekki er hægt að koma í verð. Það verður því að leysa þessi mál með því að minnka framleiðsluna verulega. Það hefur bara ekki gengið að fá aðildarlöndin til þess að breyta víngörðum í annarskonar ræktunarland.
Upphaflega fór landbúnaðarnefnd Evrópusambandsins af stað með óskir um að lágmark 400.000 vínviðarplöntur yrðu rifnar upp og eytt. Þetta átti að leiða til þess að umframbirgðir upp á einn og hálfan milljarð lítra af léttvínum, í mjög lágum gæðaflokki hyrfu af markaðinum. Fulltrúar helstu víngerðarlandanna á Evrópuþinginu börðust gegn þessum áformum og enduðu í að ná þessari tölu niður í 175.000 plöntur.
Þegar upp er staðið verður þetta alltaf spurningin um hvernig sambandinu gengur að fá sínum ákvörðunum fylgt eftir í framkvæmd. Þessu verður ekki náð nema með sameiginlega átaki og vilja aðildarþjóðanna til þess að laga þessa hluti. Það er ekki nóg að ákveða þessa hluti á fundum í Brussel heldur verður þetta að gerast í fullu samstarfi við vínbændur um alla álfuna.
Gissur Kristinsson, vínráðgjafi
Heimild: just-drinks.com