Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Í gjafahugleiðingum?

24.11.2020

Ertu í gjafahugleiðingum? Þá eru hér hagnýtar upplýsingar fyrir þig hvað gott er að hafa í huga þegar valið er léttvín til gjafa.

Í Vefbúðinni hér á vinbudin.is er öflug leitarvél sem nýtist vel til að skoða úrvalið og fá hugmyndir að tegundum sem hægt er að gefa. Fyrst má nefna að í Vínbúðunum eru til sölu sérstakar gjafapakkningar í ýmsum verðflokkum.

Í Vínbúðunum eru einnig til gjafaumbúðir sem nýtast vel ef maður vill velja sjálfur. Svo má auðvitað líka gefa sköpunargleðinni lausan tauminn og skreyta sjálfur. En stundum vill valið vandast þegar um ræðir einhvern annan sem fær flöskuna.

Það getur verið ágætt að þekkja smekk viðkomandi, eins og til dæmis hvort rauðvín, hvítvín eða freyðivín sé í uppáhaldi. Eins hvort það sé einhver sérstök þrúga sem er í uppáhaldi, nú eða svæði. Þá getur líka verið ágætt að gera upp við sig hvort eigi að feta þekktar slóðir eða koma á óvart með nýrri tegund. En engar áhyggjur ef þetta er óljóst, það er alltaf hægt að fá skiptimiða á afgreiðslukassanum. Það er líka ágætt að taka með í reikninginn verðhugmynd fyrir gjöfina. Með þessar upplýsingar að vopni er því lítið til fyrirstöðu að hefja leitina.

Starfsfólk Vínbúðanna er alltaf tilbúið að aðstoða þig við val á vörum fyrir hvers kyns gjafir, en með því að gefa upp tilteknar forsendur fyrir leitina, verður hún fljótlegri. Hægt er að hafa samband við Vínbúðirnar í gegnum tölvupóst, síma og spjallið til að fá aðstoð og þannig stytta viðveru í búðinni sjálfri. Núna þegar líður að jólum verður oft mikið álag í Vínbúðunum og viljum við stuðla að ánægjulegri upplifun um leið og við hugum að sóttvörnum. Rólegra er í búðunum framan af desember, fyrri part vikunnar og fyrri part dags. Einnig er tilvalið að nýta vefverslunina, þar sem hægt er að velja að sækja vörurnar í þeirri Vínbúð sem er næst þér, hvar sem er á landinu.