Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Kryddaður samhljómur

Íslenska lambakjötið hefur umfram annað kjöt einstaka eiginleika til að samsvara sér vel með víni. Það er ekki bara að lambakjötið falli vel að víninu heldur virðist það oft draga fram það besta í víninu og er það eflaust ástæðan fyrir því að margir vínframleiðendur kjósa oft að bera fram villikryddaða lambasteik með rauðvíninu sínu, til að undirstrika bragð og ilmeiginleika vínsins, þegar þeir eru að kynna framleiðslu sína. Fitan í lambakjötinu gerir það einstaklega vínvænt og ekki spillir fyrir að lambið hefur verið að leika sér uppi á fjöllum yfir sumarið og nærst á lyngi og kryddjurtum sem gerir íslenska lambið að þeirri gæðavöru sem það er. 

Með villikrydduðum lambahrygg eru rauðvín frá Rioja og Ribera del Duero tilvalin, kryddin í víninu stilla sér upp á móti kryddaða lambinu og úr verður flottur samhljómur. Með gamla, góða klassíska lambalærinu væri ég til í að bregða mér til Bordeaux en rauðvínin þaðan eru í einstaklega góðum félagsskap með góðu læri. Í Bordeauxvínum má oft finna keim af heiðarjurtum, lyngi, villisveppum, skógarbotni og eik. Langtímaeldaðir lambaskankar eru bragðmiklir og má því velja nokkuð öflugt vín með þeim. Vín úr Cabernet Sauvignon eiga
sterkan leik hér og mætti benda á vín frá t.d. Chile og jafnvel Ástralíu. Pottréttir úr lambakjöti falla vel að vínum frá Cotes du Rhone eða Suður-Frakklandi. Nú ef einhver er búinn að finna grillið eftir veturinn, þá henta vín frá nýja heiminum vel með grilluðu lambakjöti, þar er það sætkenndur ávöxtur og eikartónar sem undirstrika grillbragðið. Cabernet Sauvignon, blöndur úr Cabernet og Merlot eða Shiraz og Cabernet virka vel. 

Lambakjöt

Möguleikarnir í vínvalinu eru óteljandi og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, sem getur þessvegna verið eitthvað allt annað en ég hef tekið til hér. Ef þið eruð með gesti í mat, þá gæti verið skemmtilegt að bjóða upp á tvenns konar vín með lambinu, eitt frá gamla heiminum  og annað frá þeim nýja, þá er hægt að bera vínin saman og síðan má ræða um hvað hverjum finnst passa betur, en í þeim málum hafa reyndar allir rétt fyrir sér. 

 

Páll Sigurðsson, vínsérfræðingur

(úr Vínblaðinu, 1. tbl.7. árg.)