Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Upphaf lífrænnar ræktunar

Sögu skipulagðrar víngerðar má rekja aftur um ein 7.000 ár eða svo. Það sem við köllum léttvín eða borðvín er því ekki nýtt fyrirbrigði. Fornminjar gefa til kynna að fyrst hafi skipulögð vínræktun í víngörðum hafist í Kákasus. En fljótlega eftir það barst þessi þekking til landanna fyrir botni Miðjarðarhafsins og þaðan yfir til Evrópu.

Það er nútímamanninum ekki til frægðar að með landbúnaðarbyltingunni, sem varð með aukinni vélvæðingu og tækniþekkingu upp úr fyrri heimsstyrjöldinni fór að síga á ógæfuhliðina í meðferð á landinu. Framleiðsluaukningin varð gríðarleg og til þess að ná henni hófu menn að nota mikið af tilbúnum áburði og margskonar eiturefnum til þess að verja framleiðsluna fyrir skemmdum á ræktunartímanum.

Það er á þessum tíma sem fjöldi vínbænda dró sig út úr þessum hópi framleiðenda og skynjaði þörfina á því að fara vel með landið og ákváðu í framhaldi af því að stunda eins náttúrulega framleiðslu og mögulegt var. Þetta voru í raun og veru fyrstu lífrænu framleiðendurnir meðal vínbænda. Þessi hópur stækkar gríðarlega hratt í dag og eftirspurnin eftir lífrænt framleiddum vínum eykst dag frá degi.