Sjálfbærnivísir PwC er árlegt yfirlit um hvernig sjálfbærnistarfi 50 af stærstu fyrirtækjum Íslands vindur fram, með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Mat á fyrirtækjunum byggir á opinberum upplýsingum, árs- og sjálfbærniskýrslum, og er unnið af PwC.
Í ár er ÁTVR eitt af þeim átta fyrirtækjum sem tókst að sýna fram á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá eigin starfsemi og virðiskeðju. Árið 2018 fór ÁTVR að birta upplýsingar á vöruspjaldi flestra vara á vinbudin.is um áætlað kolefnisspor umbúða, en umbúðir eiga stærsta hluta kolefnissporsins.
Í hillum Vínbúðanna og hér á vefnum okkar eru tilgreindar þær vottanir sem hver vara hefur. Vottuðu flokkarnir eru; Sjálfbært, Lífrænt, Sanngjarnt og Bíódínamískt. Markmiðið með vottun vara er að vernda líffræðilega fjölbreytni og heilbrigði jarðvegs, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja góð vinnuskilyrði. Óháðir eftirlitsaðilar votta að framleiðslan sé í samræmi við kröfur og er vottunin góð vörn gegn grænþvotti.
ÁTVR vinnur nú verkefni með áfengiseinkasölum á Norðurlöndum, þar sem markmiðið er að reikna heildarkolefnisspor hverrar vöru, til að draga úr losun í virðiskeðjunni. Til viðbótar við tölur um umbúðir er því stefnt að því að birta losunartölur fyrir flutning, framleiðslu og ræktun.
ÁTVR er stolt af því að hafa náð árangri í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda og vera í hópi þeirra sem hafa náð bestum árangri. Með nýju verkefni um kolefnisspor vara leggjum við grunn að áframhaldandi árangri í sjálfbærni.
