Fréttasafn

23.06.2008 | Hvernig á að smakka vín?

Gissur Kristinsson, vínsérfræðingur
(úr Vínblaðinu, 2.tbl.6.árg.)

 

Þegar smakka á vín verður að hafa ákveðna hluti í huga. Fyrst og fremst er að gæta þess að smakkarinn eða smakkararnir séu vel fyrir kallaðir. Það skiptir miklu að allir þátttakendur í smakki séu vel úthvíldir og hraustir. Ósofinn og þreyttur smakkari
er ekki að finna það rétta í víninu og kvefpestir og annar lasleiki kallar á frestun á smakkinu.

 

RauðvínÞað skiptir einnig máli hvar smakka á vínið. Það er nauðsynlegt að hafa góða lýsingu eða birtu í því rými sem smakka á vín. Dagsbirtan er auðvitað best, en allavega skal þess gætt að góð lýsing sé til staðar þannig að útlit vínsins verði dæmt af fyllstu sanngirni. Það er samt ótrúlega oft sem haldnar eru vínsmakkanir í illa lýstum veitingastöðum eða í dimmum barskotum. Það gefur auga leið að við slíkar aðstæður er ekki hægt að dæma útlit drykkja. Auk góðrar lýsingar þarf að vera góð loftræsting
í rýminu og það algerlega laust við allan daun eða slæma lykt. Einnig skulu allir smakkarar gæta þess að bera ekki á sig sterk ilmvötn eða rakspíra rétt fyrir smakkið. Slík lykt getur spilað verulega inn í það hvernig smakkarar skynja ilm vínsins.

 

Hitastig vína skiptir vissulega máli þegar smakkað er. Gæta skal þess að vín séu á réttu hitastigi, en með því er átt við að það er þekkt staðreynd að of kalt léttvín skilar ekki frá sér þeim ilmi og bragði sem það gerir sé það smakkað við stofuhita. Almenna reglan er því sú að drekka rauð vín á hitastigi sem er svokallaður stofuhiti, en þá er átt við að hitastig vínsins sé á milli 15° til 20°. Hvað hvítu vínin varðar er best að hafa þau svöl en ekki ísköld, en þá erum við að tala um hitastig á bilinu 8° til 12°. Glösin sem notuð eru við smakkið skipta miklu máli. Í fyrsta lagi verða þau að vera algerlega gegnsæ, án allra skreytinga eða litar í glerinu því aðeins þannig sjáum við almennilega hvernig vínið lítur út. Við leitum eftir því að sjá greinilega hvort að nokkurt grugg eða botnfall sé í víninu og það algerlega tært eða á engan hátt skýjað. Nútíma tækni í víngerð gerir það kleift að hreinsa vínið algerlega og gera það kristaltært. Til er sérstakt smökkunarglas sem er með svokallaðan ISO staðal sem smökkunarglas, en það er auðvitað besta glasið til þess að smakka vín. Sé það hins vegar ekki til staðar þarf að velja glös sem sveigja inn að opinu, því þannig glös safna ilmi vínsins upp að opinu og gera okkur kleift að finna allt sem í ilminum er að finna, bæði slæmt og gott.

 

Ilmur vínsins er ekki síður mikilvægur en bragðið þegar kemur að skynjun okkar á gæðum þess. Það eru reyndar til þeir atvinnumenn í vínsmakki sem telja að ilmurinn gefi meira til kynna um gæði víns en bragð þess. En við ætlum ekki að dæma um það hér hvort það er rangt eða rétt. Gefið ykkur bara nægan tíma til þess að lykta af víninu og passið að taka smá pásur inn á milli þess sem að þið fyllið nefið af margslungnum lyktartegundum sem geta verið í borðvíni.

 

Svo er að smakka á víninu, en þá er það algert grundvallaratriði að sopinn sé nægjanlega stór til þess að vínið berist um allan munn. Það er tungan og bragðkirtlar í henni sem skynja það sem er að gerast í bragði víns, en bragðkirtlarnir eru staðsettir um alla tunguna. Fremst á tungubroddinum skynjum við sætu, á hliðum tungunnar og inni á miðju hennar skynjum við krydd og biturleika vínsins og síðan er það alveg aftast á tungunni á báðum hliðum hennar sem við skynjum sýru í víninu. Það er því
algert grundvallaratriði að vínið komist í snertingu við alla þessa fleti á tungunni. Einnig er snjallt að draga örlítið loft inn í munninn á meðan vínið er þar, en það orsakar að loftstraumurinn dregur einkenni  úr víninu aftast í munnholið og að nefopinu þar, en það eykur mjög á alla skynjun okkar á víninu. Það er því ekki óalgengt þegar margir smakkarar koma saman að allir séu sötrandi með þeim hljóðum sem því fylgja, en þetta gera smakkarar til þess að auka skynjunina á víninu.

 

Svo er auðvitað nauðsynlegt að vera með ílát í smökkunarherberginu sem smakkararnir geta spýtt víninu í. Allir  alvöru smakkarar spýta víninu eftir að hafa velt því í munni sér um stund. Þetta er algerlega nauðsynlegt ef að smakka á margar Gissur vínráðgjafitegundir, því ef víninu er kyngt þá fara áhrif áfengisins að segja til sín og þetta verður allt saman alveg óskaplega gott og enn betra eftir því sem lengra líður á smökkunina. Það er miklu skemmtilegra 8 að smakka vínin svona til að byrja með og klára svo bara úr flöskunum  eftirá.

 

Að síðustu er rétt að benda á að best er að smakka fleiri en eitt vín í senn til að hafa einhvern samanburð. Ef aðeins eitt vín er smakkað í einu þá eru allar líkur á að það þyki bara nokkuð gott, en það er kannski bara vegna þess að það fær engan samanburð. Lágmarkið er sem sagt að smakka tvö vín þar sem þá er samanburðurinn til staðar. Skemmtilegast er að smakka nokkur vín í einu og fá við það meiri samanburð. Þetta er auðvitað hægt að gera með því að hóa saman góðum vinahópi og  láta hvern og einn koma með sitt vín í smakkið eða þá að sá sem stendur fyrir smakkinu kaupi nokkur vín og vinahópurinn skipti á sig kostnaðinum.

 

Góða skemmtun!
Gissur Kristinsson, vínráðgjafi


Til baka





 

Breyta um leturstærð

  • Stækka letur
  • Minnka letur


  • Leit