Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Viognier þrúgan

Alþjóðlegur dagur Viognier þrúgunnar er 26. apríl. Viognier þrúgan (“ví-on-íe”) er upprunalega tengd Rónardalnum í suðurhluta Frakklands, þó hana megi einnig finna annars staðar í heiminum, eins og Ástralíu, Chile og Suður-Afríku. Í Rhône er hún hvað þekktust í norðurhlutanum í Condrieu, Château Grillet og Côte-Rôtie. Á síðastnefnda svæðinu má allt að 20% af henni vera gerjuð með rauðvínsþrúgunni Syrah.  

Hvítvínin bera gjarnan bragðeinkenni ferskju, apríkósu, suðrænna ávaxta og geta verið blómleg. Gjarnan er talað um tvo stíla Viognier vína; annars vegar einfaldari og ávaxtaríkari vín og hins vegar vín sem hafa fengið eikarmeðferð í víngerðinni og öðlast flóknari bragðeinkenni fyrir vikið.  

Eðli Viognier þrúgunnar er þannig að undir lok þroskatímabilsins getur berið safnað mjög hratt sykri, sem gerir það að verkum að sum hvítvínin hafa allt að 15% í alkóhólmagni.  

Viognier hvítvín geta hentað vel með kjúklingi og fiski, salötum og léttari réttum, jafnvel einfaldari ostum, ekki er verra ef til dæmis þurrkaðar apríkósur koma við sögu í uppskriftinni. Í vefbúðinni má sjá lista yfir þau Viognier vín sem eru í sölu í Vínbúðunum. 


Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi