Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sauvignon Blanc

Oft er talað um Sauvignon Blanc sem alþjóðlega þrúgu sem þýðir að hún er ræktuð víða í heiminum. Vín úr þessari þrúgu spanna allan gæðaskalann, með einkennandi ferska sýru og eru mörg hver í grösugri stílnum á meðan önnur bæta við sig ávaxtaríkari einkennum.  

Upprunalega er hún oftast nær tengd Frakklandi og þá helst vínræktarsvæðunum Loire og Bordeaux. Í Loire eru vínin frá Sancerre AOC hvað þekktust og þar á eftir fylgir Pouilly-Fumé AOC. Vínin þaðan þykja gefa af sér grösugan stíl; vín sem bera einkenni sítrusávaxta, stikilsberja, tómatlaufs og jafnvel sítrónugras, ásamt fínlegum steinefnatónum í sumum þeirra. Í Bordeaux eru vínin einnig í grösugri stílnum en fá gjarnan einhverja eikarmeðferð sem geta gefið vínunum fleiri, og fyrir vikið, flóknari bragðeinkenni. Í suðurhluta Frakklands má einnig finna áhugaverð vín frá vínvið sem hefur verið ræktaður á svalari svæðum. 

Nýsjálendingar hafa náð markverðum árangri með Sauvignon Blanc en um 64% víngarða þar eru plantaðir með þrúgunni. Það sem einkennir nýsjálenskan Sauvignon Blanc er hversu ávaxtaríkur hann er í samanburði við þann sem framleiddur er í Loire. Fyrir utan bragðeinkenni sítrusávaxta má oft finna ríkulegt bragð af passjón, melónu og stundum ferskum aspars. Þessu ná framleiðendur með því að leyfa hluta berjanna að snúa að sólu þannig að þau þroskist meira heldur en þau ber sem þroskast í skugga.  
Sauvignon Blanc má einnig finna frá Suður-Afríku, Chile, Bandaríkjunum og víðar. 

Upplagt er að para Sauvignon Blanc með skelfiski og fiski, kjúklingi og ýmsum grænmetisréttum. Einnig parast vínin vel með mýkri ostum eins og Brie og Camembert og hentar einstaklega vel með ferskum geitaosti. Hér má finna lista yfir Sauvignon Blanc sem er í sölu í Vínbúðunum. 
 

Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi