Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Á ferðalagi

Þegar sól hækkar á lofti og ferðafiðringurinn gerir vart við sig fæ ég gjarnan ferðatengdar spurningar eins og hvernig vín henti í ferðalagið, hvort hentugra sé að velja kassavín eða flösku og hvernig sé best að kæla vínið eða bjórinn. Á sumrin breytist gjarnan vínvalið og léttari, ávaxtaríkari og frískari vín verða gjarnan fyrir valinu. Rauðvín sem ferðast er með þarf að þola að kólna örlítið og þá henta léttari og ávaxtaríkari vín betur. Ávaxtarík og mjúk hvítvín eru mun vinsælli yfir sumartímann. Eins er sniðugt að vera með rósavín á sumrin því þau eru ótrúlega góð með léttum sumarmat. 

Kæling á bjór og víni
Á heitum sumardögum, sem vonandi verða margir í sumar, vilja margir bjórinn eða vínið vel kalt og sé maður staddur fjarri ísskápum eða rafmagnskælum eru góð ráð dýr. Margir eiga góð kælibox sem eru með kælieiningum eða klaka sem halda vel köldu, en hvað skal gera þegar ekkert af þessu er við höndina? Næsta á eða vatn er þá sniðugur staður til að kæla og gerist það frekar hratt. Upplagt er að hlaða steinum og útbúa smá lón ef hægt er, eða hafa það sem kæla á í poka eða neti til að eiga ekki á hættu að það fljóti burt.

Kassavín og kostir skrúftappa
Kassavínssala eykst á sumrin og þykja mörgum það þægilegar umbúðir til að ferðast með í bústað eða tjaldútilegu þar sem aðeins þarf að skrúfa frá krana og vínið geymist ágætlega. Annar þáttur sem spilar inní er að þessi vín eru oft ávaxtaríkari og þola því betur að kólna, sem gjarnan hendir á íslensku sumri. Það sama á við um skrúftappana að auðvelt er að opna og loka síðan aftur.


                         Góða ferð!


Júlíus Steinarsson,
vínráðgjafi