Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Umsókn um sölu áfengis

Umsókn um að koma vöru í sölu hjá Vínbúðunum 

Hver sá sem hefur áfengisheildsöluleyfi og hefur gert stofnsamning einnig, einnig hægt að fylla hann út rafrænt, telst vera birgir ÁTVR og getur sent umsóknir um að koma vöru í sölu í Vínbúðunum. 


Umsóknir 

Sótt er um að koma vöru í sölu með því að fylla út umsóknarform á birgjavef.  

 

Fylgigögn með umsókn 

Með umsókn þarf að skila vöruvottun og sýnishorni af vörunni. 
Með umsókn um sérpöntun nægir að senda myndir af sýnishorni.  

 

Sýnishorn  

Sýnishorn skal afhenda á skrifstofu ÁTVR, Stuðlahálsi 2, Reykjavík. 

Það skal vera af endanlegri gerð hvað varðar bæði umbúðir og innihald. Þegar við á skal einnig skila ytri smásöluumbúðum, t.d. ef vara er sett í hillur vínbúða í öskju eða fjölpakkningu sem hylur innri umbúðir. 

Lágmarksmagn sýnishorns er 500 ml. Ef eining er minni en 500 ml þarf að afhenda fleiri einingar þar til lágmarksmagni er náð. 

Sýnishorn er að jafnaði óendurkræft. Sé um mjög dýrar sölueiningar að ræða getur ÁTVR skilað sýnishorni. 


Leiðbeinandi álit 

Hægt er að leita til ÁTVR, umsokn@vinbudin.is, og óska eftir leiðbeinandi áliti á umbúðum og merkingum áður en send er formleg umsókn. Senda má sýnishorn, ljósmyndir eða prófarkir. 


Vöruvottun  

Vöruvottun má senda rafrænt með umsókn eða skila á skrifstofu ÁTVR. Skjöl sem að jafnaði eru samþykkt sem vöruvottun eru m.a.: 

  • Markgildi/viðmið (specification) frá framleiðanda, sjá viðmið um vöruvottun.
  • Efnagreiningarvottorð frá rannsóknarstofu 
  • Efnagreining frá framleiðanda 


Umsóknargjald 

ÁTVR er heimilt að innheimta umsóknargjald af birgjum til að standa straum af kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu ÁTVR við að taka nýja vöru til sölu.  

Umsóknargjald er kr. 33.232 með virðisaukaskatti. Sjá nánar gjaldskrá umsóknargjalds

 
Undanþágur frá umsóknargjaldi 

  • Umsóknir um sölu á vöru sem berast innan við 12 mánuðum eftir brottfellingu úr kjarnaflokki, sérflokki og tímabilsflokki.
  • Vörur sem ÁTVR óskar eftir til að auka fjölbreytni og gæði vöruúrvals bera ekki umsóknargjald.

 

Afgreiðsla umsóknar 

Afgreiðsla umsóknar hefst þegar sýnishorn og vöruvottun hafa verið móttekin. Afgreiðslan samanstendur af eftirtöldum þáttum: 

Skoðun sýnishorns með tilliti til umbúða og merkinga.​ 

Skráning í vöruspjald og ljósmyndun fyrir heimasíðu ÁTVR, vinbudin.is. 

Gæðaeftirlit, þ.e. skynmat, yfirferð vöruvottunar og mælingar á efnainnihaldi sýnishorns. 

Gera má ráð fyrir að afgreiðsla umsóknar taki um þrjár vikur. Komi ekki fram athugasemdir við skoðun og gæðaeftirlit hefst samþykktarferli.  

Ef gerðar eru athugasemdir fær umsækjandi upplýsingar um að fyrirhugað sé að hafna umsókn, ásamt leiðbeiningum um mögulegar útbætur. 


Merkingar 

Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram á umbúðum áfengis eru: 
 
I. Heiti vöru, þ.e. lögheiti, lýsandi heiti eða venjubundið heiti. Athugið að ekki heiti vörumerkis (brand) nægir ekki.
II. Styrkleiki vínanda miðað við rúmmál (t.d. „11,5% vol.“) 
III. Lítramál (lítrar, sentilítrar eða millilítrar) 
IV. Ofnæmis- og óþolsvaldar þegar við á, t.d. súlfít, bygg, hveiti, egg, mjólk o.fl. Sama gildir um lakkrís og koffein. Gæta þarf sérstaklega að framsetningu á merkingum ofnæmis- og óþolsvalda.
V. Ábyrgðaraðili vörunnar á EES (nafn/firmaheiti og heimilisfang eða veffang) 
VI. Dagsetning um neyslutíma ef við á („best fyrir“ eða „best fyrir lok“) 
VII. Framleiðslulota – „lotunúmer“ 
VIII. Strikamerki (EAN/UPC) 
Allar lögboðnar merkingar skulu vera með leturstærð að lágmarki 1,2 mm miðað við hæð lágstafa.

Nánari upplýsingar má sjá í reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda nr. 1294/2014. 


Samþykkt umsókn 

Þegar afgreiðslu umsóknar er lokið án athugasemda og umsóknargjald hefur verið greitt er umsókn samþykkt. 
ÁTVR ákveður upphafsdag sölu. Ákvörðunin tekur mið af biðlista samþykktra umsókna til reynslusölu og óskum birgis. Að jafnaði er sölubyrjun fyrir vöru í reynsluflokki 4-6 mánuðir frá samþykktardegi.