Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Að komast í viðskipti

ÁTVR kaupir aðeins áfengi af íslenskum birgjum. Birgjar ÁTVR í þessum skilningi eru einstaklingar eða lögaðilar sem hafa leyfi til heildsölu áfengis og hafa gert stofnsamning um viðskipti við ÁTVR. 

Áfengisheildsöluleyfi 

Leyfi þarf til innflutnings á áfengi til endursölu, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Leyfið er gefið út af sýslumanni í hverju umdæmi. Nánari upplýsingar fást á skrifstofum sýslumanna eða hjá leyfi@syslumenn.is
Áfengisheildsöluleyfið veitir rétt til þess að selja vöru áfram til ÁTVR og til veitingahúsa og hótela. Lögum samkvæmt má aðeins ÁTVR selja áfengi í smásölu. 
Rétt er að benda á að þeir sem hyggja á innflutning eða framleiðslu áfengis þurfa einnig að fá starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags. 

Stofnsamningur

Stofnsamningur er yfirlýsing handhafa áfengisheildsöluleyfis um að hann samþykki viðskiptaskilmála ÁTVR.
Fylla þarf út samning hér á vefnum og undirrita hann rafrænt (með rafrænum skilríkjum).

Athugið að stofnsamningur verður ekki samþykktur af ÁTVR nema fyrirliggjandi séu staðfestingar á starfsleyfum frá heilbrigðiseftirliti og sýslumanni ("Starfsleyfi heilbrigðiseftirlits til að reka matvælafyrirtæki" og "Leyfi sýslumanns til heildsölu á áfengi skv. áfengislögum"). Einnig þarf staðfesting á umboði til undirritunar að fylgja, t.d. vottorð úr fyrirtækjaskrá.

SMELLTU HÉR TIL AÐ FYLLA ÚT RAFRÆNAN SAMNING


Birgjavefur

Þegar stofnsamningur er kominn á er veittur aðgangur að sérstöku vefsvæði, birgjavef. Þar getur birgir m.a. sent umsóknir um sölu og fylgst með afgreiðslu þeirra, séð daglegar sölutölur fyrir sínar vörur o.fl.

Aðgangur að birgjavef er veittur með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Þetta er gert til að tryggja að aðeins birgirinn sjálfur og þeir tengiliðir sem hann tiltekur geti sent umsóknir, breytt verði o.s.frv.

Listi yfir áfengisbirgja

Tóbaksviðskipti

Forsenda þess að ÁTVR taki tóbaksvöru til heildsölu er að ÁTVR berist almennar upplýsingar um viðkomandi tóbaksbirgi. Nánar tiltekið upplýsingar um heiti, kennitölu, heimilisfang og tengiliðaupplýsingar birgis, þ.e. upplýsingar um heiti og kennitölu þeirra einstaklinga er skulu koma fram fyrir hönd birgisins og hafa aðgang að aðgangsstýrðu vefsvæði, svokölluðum birgjavef, fyrir hönd birgis. Þá skal afhenda ÁTVR, þegar við á, staðfestingu á að birgir hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1082/2004 um tóbaksgjald og merkingar tóbaks, þ.e. að tilkynnt hafi verið um innflutning á tóbaki. Óútfyllt eyðublað fyrir tilkynninguna má nálgast á vef Tollstjóra. Aftur á móti þegar tóbaksbirgir hyggst framleiða tóbak skal viðkomandi, skv. 2. mgr. 4. gr. síðastnefndrar reglugerðar, tilkynna ÁTVR um framleiðslu sína áður en framleiðslan hefst. Slíka tilkynningu má senda ÁTVR t.d. á netfangið umsokn@vinbudin.is en ekki hefur verið útbúið eyðublað þar að lútandi. Hafa má hliðsjón af upplýsingagjöf í fyrrgreindu eyðublaði tollstjóra auk þess sem upplýsa skal ÁTVR um þá vöru sem fyrirhugað er að framleiða og hvar og hvenær framleiðslan mun fara fram. Með vísan til framanritaðs þá er ekki undirritaður eiginlegur samningur, þ.e. stofnsamningur, um vörukaup ÁTVR á tóbaki.

Þegar birgir hefur fengið úthlutað aðgangi að birgjavef getur viðkomandi lagt þar fram umsókn um sölu á einstökum vörutegundum tóbaks. Umsóknarform á birgjavef skal þá útfyllt og meðfylgjandi umsókn skal vera sýnishorn, tvær sölueiningar, af vörunni af endanlegri gerð eða, ef afhent sýnishorn eru ekki af endanlegri gerð, próförk með endanlegu útliti þ.m.t. viðvörunarmerkingum á íslensku. 

Allar helstu reglur sem gilda um tóbak má finna hér á vinbudin.is.  Vakin er athygli á því að nýlega breytt tóbaksvarnarlög munu leiða til breytinga á komandi misserum þegar ákvæði evrópskrar tilskipunar um tóbaksvarnir verða innleidd. Vegna þeirra breytinga hefur verið útbúið vefsvæði með helstu upplýsingum fyrir hagaðila. 

Starfsfólk vörusviðs ÁTVR veitir nánari upplýsingar ef óskað er, t.d. má senda erindi þar að lútandi á umsokn@vinbudin.is.