Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Framstilling vara

Ábyrgð:

  • Verslunarstjóri er ábyrgur fyrir því að reglum þessum sé fylgt
  • Þjónustustjóri sölu- og þjónustusviðs ber ábyrgð á að gæðaskjalið sé ávallt rétt

Framstilling vöru í Vínbúðum

Reglur þessar eiga að tryggja að upplifun viðskiptavina sé með svipuðu móti þegar gengið er inn í Vínbúðirnar, hvort sem það er í stærstu Vínbúðunum eða þeim minnstu. Enn fremur eiga þessar reglur að tryggja hlutleysi gagnvart birgjum og rétta framstillingu miðað við söluhlutfall.

Meginreglur um framstillingu

  1. Vörum er raðað í hillur þannig að sölutegundum í sama framstillingarflokki er raðað saman. Sjá töflu 1. Framstillingarflokkar og töflu 2. Flokkar bjórs.
  2. Fyrst inn – fyrst út. Eldri vörur eiga að vera fremst í hillu og nýjar vörur fyrir aftan þær. Bjór, síder, gosblöndum, fernum og kassavíni á að endurraða reglulega eftir endingartíma.
  3. Draga á vörur fram í hillu til að gefa Vínbúðinni betri heildarsvip. Það getur þýtt að vörur fái tímabundið meiri framstillingu, ef varan er notuð til að fylla í skarð vöru sem ekki er til.
  4. Framstilling hverrar vörutegundar á að jafnaði að vera á einum stað í hverri Vínbúð. (Sjá undantekningu í kafla um léttvín).
  5. Framstilling vara á ekki að vera söluhvetjandi, til dæmis á ekki að koma vörum fyrir á afgreiðslukössum eða ofan á hillubökum.
  6. Framstilling á vörum á að öllu jöfnu ekki að ná upp fyrir hillubök.
  7. Nýjum vörum í vöruvali skal komið fyrir með öðrum vörum í sama framstillingarflokki. Fjöldi framstillinga skal taka mið af því að varan sé ný í viðkomandi Vínbúð.
    1. Þegar ný vara berst í Vínbúð skal verslunarstjóri sjá til þess að stillingar séu uppfærðar þar sem við á, t.d. í Navision. Bæði þarf að uppfæra stillingar fyrir viðkomandi vöru og aðrar vörur sem færast til vegna komu nýju vörunnar.
  8. Æskilegt er að öllum vörum í tímabilsflokki (dæmi: jólabjór, þorrabjór....) sé komið fyrir á sama stað, eins og við verður komið. Ekki er óeðlilegt að framstilling á öðrum vörum minnki á meðan vörur í tímabilsflokki eru í sölu.
  9. Vörur sem fá aukana dreifingu vegna þemadaga er komið fyrir á meðal annarra vara í sama framstillingarflokki í viðkomandi Vínbúð. Þær lúta sömu reglum varðandi framstillingu og vörur í föstu vali en fá sér merkingu.
  10. Notast skal við hillur, palla eða brettalausnir sem samþykktar hafa verið af Rekstri Vínbúða til að stilla fram vörum.
  11. Allar breytingar innan framstillingarrýmis skal bera undir Rekstur Vínbúða áður en ráðist er í breytingar. Þetta á ekki við um tímabundnar breytingar vegna framstillingar á tímabilsvöru eða vegna þemadaga.
  12. Fyrirspurnum birgja sem snúa að framstillingu í Vínbúðunum skal beint til skrifstofu/Reksturs Vínbúða.


Framstilling á léttvíni

  1. Innan framstillingarflokka í léttvíni á að raða eftir löndum.
  2. Innan hvers lands er dýrari vínum raðað í efri hillur og ódýrari í neðri, eftir því sem við verður komið.
    1. Við verðbreytingar skal endurraða vörusafni eins fljótt og auðið er til að viðhalda réttri verðröðun.
  3. Hámarksframstilling á einni og sömu tegundinni er miðuð við sem svarar 2/3 úr hillu eða sjö-átta framstillingar (750 ml. fl.).
  4. Vínbúðir sem eru með bjórkæli hafa heimild til að stilla fram vinsælustu hvítvíns-, rósavíns- og freyðivíns tegundunum í kæli, ef pláss leyfir. Sú framstilling á ekki að hafa áhrif á aðra framstillingu á vörunni í viðkomandi Vínbúð.
    1. Val á vínum í kæli á að stjórnast af sölutölum í viðkomandi Vínbúð og á að endurskoða samhliða vöruvalsbreytingum þrisvar sinnum á ári (í febrúar, júní og október, ár hvert).
  5. Að öllu jöfnu á aðeins einn árgangur af tilteknu léttvíni að vera í hillu að hverju sinni.
  6. Sjá nánari útlistun og sérstök fyrirmæli í töflu 1.


Framstilling á bjór, gosblöndum og síder.

  1. Framstilling ræðst af sölu í hverri Vínbúð.
  2. Verslunarstjóri ber ábyrgð á að bjór fái framstillingu m.v. sölu viðkomandi Vínbúðar.
  3. Verslunarstjóri skal endurskoða uppröðun á bjór, gosblöndum og síder samhliða vöruvalsbreytingum í febrúar, júní og október ár hvert.
    1. Til hliðsjónar skal verslunarstjóri notast við sölutölur og önnur stoðgögn úr  Navision og Power bi skýrslum.
    2. Framstilling á að byggja á sölu síðustu tveggja mánaða.
    3. Við ákvörðun um framstillingapláss fyrir vörur skal skoða seldar einingar í hlutfalli við heildarsölu innan framstillingarflokks.
    4. Framstilling hverrar vöru skal endurspegla söluhlutfall hennar innan viðkomandi framstillingarflokks, eins og við verður komið.
  4. Verslunarstjóri skal endurskoða uppröðun oftar ef aðstæður kalla á það, t.d. þegar tímabilsvörur koma í sölu, þegar þær hætta eða þegar skyndileg ófyrirséð söluaukning verður. Verslunarstjóri skal bregðast við verulegri söluaukningu með aukinni framstillingu í samráði við Rekstur Vínbúða.
  5. Nýjum vörum skal vera komið fyrir með sambærilegum vörum í viðkomandi Vínbúð. Fjöldi framstillinga skal taka mið af því að varan sé ný.
  6. Eftirlit og stuðningur með uppröðun er frá Rekstri Vínbúða.
  7. Hámarks uppstöflun á bjór, gosblöndum og síder skal vera sem hér segir:
    1. 500 ml dósir: 9 brettalög/kassar eða að hámarki 170 cm.
    2. 330 ml dósir: 13 brettalög/kassar eða að hámarki 170 cm.
    3. 500 ml flöskur: 5 brettalög/kassar eða að hámarki 160 cm.
    4. 330 ml flöskur: 6 brettalög/kassar eða að hámarki 160 cm.

Uppstöflunarmagn hér að ofan miðar við stöflun á bretti, palla eða palla á hjólum. Óheimilt er að raða vörum á gólf Vínbúða eða á gólf baksvæða.

  1. Hámarksframstilling á einni og sömu tegundinni er miðuð við tvö bretti. Það þýðir að söluhæstu tegundirnar fá ekki framstillingu miðað við sölu. Þetta er gert vegna takmörkunar á rými í Vínbúðunum. Það að takmörkun er á framstillingu söluhæstu tegundanna, þýðir að rými sem annars ætti að vera undir söluhærri tegundir er notað undir söluminni tegundir.

Sérstök tilmæli fyrir K1-K4 Vínbúðir varðandi uppröðun á gosblöndum og síder

  1. Gosblöndum og síder í flöskum skal komið fyrir í hillu í stykkjatali eða í kippum en ekki heilum kössum.
  2. Gosblöndum og síder skal koma fyrir í hillu en ekki á pöllum á gólfi, sé því við komið.
  3. Framstilling á gosblöndum og síder í 500ml (og minni) sölueiningum skal vera að lágmarki tvær framstillingar.

 

Framstilling á sterku áfengi

  1. Framstilling ræðst af sölu Vínbúðar.
  2. Vörum á að raða eftir framstillingarflokkum. Upptalning á þeim vörum sem eru í hverjum framstillingarflokki af sterku áfengi er að finna í töflu 1.
  3. Verslunarstjóri skal endurskoða uppröðun á sterku áfengi samhliða vöruvalsbreytingum í febrúar, júní og október ár hvert.
  4. Pelum og minni flöskum skal vera komið fyrir í efri hillum innan hvers framstillingarflokks, eins og við verður komið.
  5. Stærri flöskum á að raða í neðri hillum innan hvers framstillingarflokks, eins og við verður komið.
  6. Nýjum vörum í vöruvali skal komið fyrir á snyrtilegan hátt, nálægt svipuðum vörum.
  7. Fjöldi framstillinga skal taka mið af því að varan sé ný í viðkomandi Vínbúð.

Síðast uppfært 13.01.2022