Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Foreldrar, unglingar og áfengi

Foreldrar, unglingar og áfengi

Vorin og sumrin er oft sá tími sem ungt fólk prófar að drekka áfengi í fyrsta sinn. Prófin eru búin og halda á upp á það með ýmsum hætti, svo sem veislum eða útilegum. Unglingar sem eru að þreifa sig áfram í heimi fullorðinna telja sig oft geta - og jafnvel eiga - að gera áfengi hluta af sínum lífsstíl. Flestum er þó ljóst hvaða afleiðingar áfengisdrykkja getur haft á heilbrigði og félagslegt umhverfi þess sem drekkur. Á þetta ekki síst við um áfengisdrykkju ungmenna sem enn eru að taka út þroska.

 

Foreldrar eru lykilaðilar í að beina börnum sínum inn á heilbrigðan lífsstíl. Rannsóknir hafa sýnt að umhyggja, aðhald og eftirlit foreldra dregur mjög úr líkum á áhættuhegðun unglinga. Foreldrar ættu hér að hafa nokkur atriði í huga:

Því fyrr sem börn byrja að drekka því  líklegra er að þau drekki of mikið og meiri hætta er á að þau prófi önnur vímuefni. Foreldrar þurfa að vera ófeimnir við að ræða við börn sín um kosti þess að fresta að byrja áfengisneyslu og hvernig gott er að segja nei þegar áfengi er í boði. Þannig verður unglingurinn betur í stakk búinn til að standast hópþrýsting. Hann þarf að vita að sá sem ekki lætur undan þrýstingi er sterkastur. Ef unglingurinn vill ekki ræða þessi mál við foreldra þá gæti verið gott að finna ættingja eða góðan vin til að ræða við hann.

  • Það skiptir unglinga miklu máli að vera eins og hinir, að samsama sig hópnum. Þess vegna er mikilvægt að þeim sé ljóst að meirihluti 15 og 16 ára unglinga á Íslandi neytir ekki áfengis.
  • Foreldrar unglinga þurfa að standa saman og senda skýr skilaboð um að áfengi sé ekki leyfilegt fyrir unglinga. Mikilvægt er að fullorðnir láti sig annarra börn varða og láti vita ef þeir verða varir t.d. við drykkju eða reykingar í vinahópnum. Rannsóknir á viðhorfum foreldra sýna að langflestir foreldrar vilja fá að vita um slíkt.
  • Ef unglingur kemur drukkinn heim er ekki besta ráðið að hella sér yfir hann með skömmum þá stundina, þó freistandi sé. Mun betra er að koma honum í háttinn og ræða við hann í rólegheitum daginn eftir. Mikilvægt er að barnið finni að ást foreldra er skilyrðislaus og þó þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum með þetta atvik þá muni þeir styðja það og elska áfram.
  • Með því að útvega unglingum áfengi hefur foreldri gefið samþykki sitt fyrir því að barnið drekki. Ef foreldrar setja ekki mörk þá er líklegra að barnið drekki meira. Skammturinn sem foreldrarnir nesta barnið með út á lífið verður viðbót við aðra drykki.
  • Eftirlitslaus partý eða helgarferðir geta verið unglingnum erfiðar. Þótt foreldrar treysti sínu barni þá geta aðstæðurnar orðið þannig að barnið ráði ekki við þær.
  • Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir og unglingurinn lærir drykkjuvenjur foreldranna. Það er umhugsunarvert hvort við séum e.t.v. að kenna börnum okkar að ef það á að slappa af eða skemmta sér þá sé áfengi haft um hönd.

Ekki hika við að leita aðstoðar ef þig grunar að einhver í fjölskyldunni eigi við vandamál að stríða.

Hildur Björg Hafstein

Birt með góðfúslegu leyfi doktor.is

Grein birt í Vínblaðinu, 9.árg. 2.tbl. júní 2011