Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Dómari í eigin sök

Með einni ákvörðun getur það sem upphaflega átti að gera góðan gleðskap betri leitt af sér hörmungar og ævarandi iðrun. Hér er verið að tala um það þegar menn setjast undir stýri eftir neyslu áfengis.

„Það er allt í lagi að keyra. Ég finn ekkert á mér - er að fara svo stutta vegalengd. Ég er minnst fullur af félögunum og búinn að fá mér Ópal ef ég skyldi verða svo óheppinn að löggan stoppi mig.“ Þetta eru hugrenningar sem margir hafa heyrt og kannast við. Þarna hefur ökumaðurinn mestar áhyggjur af því að lögreglan nái honum og taki hann úr umferð. Það fer hinsvegar lítið fyrir óttanum við það að verða valdur að slysi.

Það eru sem betur fer töluverðar líkur á því að þú verðir tekinn af lögreglu og sviptur ökuréttindum ef þú ekur undir áhrifum áfengis. „Sem betur fer“ fyrir þig og aðra þá sem eru úti í umferðinni. En það eru einnig töluvert miklar líkur á að þú valdir alvarlegu slysi. Það sýna slysatölur Umferðarstofu. Ef þú tekur ákvörðun um að keyra eftir neyslu áfengis eru þrír möguleikar í stöðunni. Að heppnin bjargi þér, lögreglan stöðvi þig eða þú lendir í slysi. Heppni er ekki val og við skulum því sleppa henni. Þá eru eftir þessir tveir kostir að lögreglan taki þig eða þú valdir slysi. Hvort myndir þú velja hafir þú eitthvert val þar um?

Að aka undir áhrifum áfengis er ekki eitthvað sem maður lendir í. Það er ekki óhapp heldur ákvörðun sem maður tekur. Ein algengasta afsökunin sem notuð er til að réttlæta akstur eftir neyslu áfengis er að maður sé búinn að drekka svo lítið. Önnur ekki síður algeng afsökun er að maður sé að fara svo stutta vegalengd. Þessar réttlætingar og fleiri til duga hins vegar skammt frammi fyrir fórnarlömbum ölvunaraksturs. Þær duga skammt frammi fyrir dómstólum eða tryggingarfélögum sem eiga fullan endurkröfurétt á þig vegna þess kostnaðar sem hlýst af slysi og tjóni sem þú veldur með akstri undir áhrifum áfengis. Þú gætir einnig átt yfir höfði þér dóm fyrir manndráp af gáleysi og/eða dóm fyrir að valda fólki líkamstjóni. Það þarf oft ekki nema stutta vegalengd og lítið magn áfengis til að afleiðingarnar verði alvarlegar.

Segjum að viðbragð ökumanns seinki um aðeins 1 sekúndu vegna þess að hann neytti lítils magns áfengis. Ef bíllinn hans er á 70 km hraða þá færist hann um tæpa 20 metra á sekúndu. Ímyndum okkur að barn gangi skyndilega út á veginn í veg fyrir bílinn. Bíllinn færist 20 metrum lengra en eðlilegt væri og á þeirri vegalengd, sem bætist við vegna smávægilegrar ölvunar, stendur barnið sem bíllinn lendir á. Það verður alvarlegt slys vegna þess eins að búið er að sóa dýrmætri sekúndu sem hefði getað stöðvað bílinn 20 metrum fyrr. Barnið hefði sloppið ef viðbragð ökumannsins væri í lagi. Hafðu þetta í huga næst þegar þú veltir því fyrir þér hvort það sé ekki allt í lagi að setjast undir stýri eftir neyslu áfengis.

Mörg okkar sem hafa treyst á heppnina hafa ekið eftir neyslu áfengis. Þeir sem nú standa uppi með það að hafa valdið dauða eða líkamstjóni vegna ölvunaraksturs treystu líka á heppnina áður en þeir lögðu upp í örlagaríka för.

Ekki lenda í þeim aðstæðum að áfrýja þurfi afleiðingum takmarkaðrar dómgreindar þinnar til alvörudómstóla. Taktu leigubíl eða fáðu far með einhverjum, sama hve lítið eða mikið áfengi þú hefur drukkið. Vertu búinn að gera ráðstafanir varðandi það að komast ferðar þinnar áður en þú smakkar áfengi. Góða ferð og góða skemmtun.

Einar Magnús Magnússon

Upplýsingafulltrúi Umferðarstofu