Neysla áfengis á meðgöngu getur valdið alvarlegum líkamlegum og andlegum fæðingargöllum og þroskaskerðingu. Á hverju ári fæðast börn sem orðið hafa fyrir skaða í móðurkviði af völdum áfengis. Flestar konur gera sér grein fyrir því að mikil áfengisneysla á meðgöngu getur skaðað barnið sem þær ganga með en margar konur gera sér aftur á móti ekki grein fyrir því að jafnvel lítil neysla getur verið barninu skaðleg. Þegar barnshafandi kona neytir áfengis jafngildir það því að gefa ófæddu barni áfengi. Áfengi fer óhindrað yfir í fylgjuna og gegnum naflastrenginn og til barnsins. Líffærin eru ekki nægilega þroskuð til að brjóta áfengið niður og því verður fóstrið fyrir meiri áhrifum af völdum þess en móðirin.
Hverjar eru hætturnar við áfengisneyslu á meðgöngu?
Það er þekkt að u.þ.b. 6% af börnum þeirra mæðra sem neyta mikils áfengis á meðgöngu verða fyrir mjög alvarlegum fósturskaða. Þar er um að ræða svokallað áfengisheilkenni fósturs (Fetal Alcohol Syndrome). Börn sem þannig er komið fyrir fæðast óeðlilega lítil miðað við meðgöngulengd, þau hafa lítil augu, flata efri vör, lítið og/eða uppbrett nef og vanþróaða kjálka. Líffærin og þá sérstaklega hjartað og heilinn þróast ekki eðlilega. Heilinn getur orðið óeðlilega lítill sem leiðir til minni heilastarfsemi, greindarskerðingar, athyglisbrests, ofvirkni, hvatvísi, hegðunarerfiðleika, skertrar félagsfærni, skertrar rökhugsunar, málhömlunar og námserfiðleika. Þessi skaði fylgir barninu ævilangt.
Áfengisheilkenni fósturs eru sjaldgæf en það er vitað með vissu að mun fleiri börn fá vægari einkenni sem birtast í hegðunarvandamálum og erfiðleikum við nám síðar á ævinni.
Áfengisneysla á meðgöngu getur einnig leitt til fósturláts, stuðlað að fæðingu fyrir tímann og dauða á nýburaskeiði. Ef verulega mikils áfengis er neytt eru tvisvar til fjórum sinnum meiri líkur á fósturláti á þriðja til sjötta mánuði meðgöngu en ella.
Er þá ekki óhætt að drekka neitt áfengi á meðgöngu?
Þeirri spurningu er fljótsvarað. Engin þekkt ,,örugg mörk” eru til og því er best að sleppa áfengi algjörlega á meðgöngu og meira segja er talið best að halda sig frá áfengi ef kona hefur í huga að verða barnshafandi. Einnig er vert að muna að kona sem drekkur áfengi sjaldan en mikið í einu veldur barni sínu jafnmiklum skaða og sú sem drekkur lítið áfengi hverju sinni en oft.
En ef ófrísk kona drekkur áfengi áður en hún kemst að því að hún er barnshafandi?
Ef um afmarkað tilvik er að ræða, er ólíklegt að það valdi barninu skaða. Það er vel þekkt að áhrif áfengis á fóstur eru í samræmi við magn þess sem neytt er og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða sterk vín, létt
vín eða bjór.
Hvað með áfengisneyslu verðandi föður?
Ekki eru neinar vísbendingar um að áfengisneysla föður geti valdið fósturskemmdum. Ýmislegt bendir þó til að mikil alkóhólneysla geti lækkað magn karlhormónsins testósteron sem aftur veldur minni framleiðslu á sæðisfrumum og því minnkaðri frjósemi. Lífsstíll föðursins hefur andleg og félagsleg áhrif á líðan mæðra og barna auk þess sem faðirinn sýnir móðurinni stuðning með því að minnka eða sleppa alveg áfengisneyslu meðan á meðgöngunni stendur.
Í stuttu máli
Flestum verðandi foreldrum er það mjög mikilvægt að stuðla að heilbrigði barnsins sem í vændum er. Lífsstíll okkar getur skipt sköpum um framtíð og þroska barnsins.
Lifum, lærum og njótum meðgöngunnar án áfengis.
Höfundur greinarinnar:
Þórgunnur Hjaltadóttir,
hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og ritstjóri www.doktor.is