Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Umhverfis- og loftslagsstefna

Eftirfarandi stefna tekur gildi 1.1.2022.

ÁTVR stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér.

Fram til 2030 mun ÁTVR draga úr beinni losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2016. ÁTVR mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig hefur fyrirtækið kolefnisjafnað alla beina losun og allt flug frá og með árinu 2012.

Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum og Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um samdrátt í losun GHL.

Stefnan nær til samgangna á vegum ÁTVR, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu. Stefnan nær til allrar starfsemi ÁTVR, bygginga, mannvirkja og framkvæmda.

ÁTVR hefur sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi. Til að tryggja góða frammistöðu:

  • berum við virðingu fyrir umhverfinu, förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð
  • viljum við að í daglegum rekstri sé tekið tillit til umhverfis- og loftslagsmála og unnið að stöðugum úrbótum
  • uppfyllum við lagalegar kröfur á sviði umhverfis- og loftslagsmála og vinnum markvisst með mikilvæga umhverfisþætti.

Áherslur

Vörudreifing

Við leggjum áherslu á að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka kolefnisfótspor. Unnið verður að lausnum með dreifingaraðilum  og samhliða er lögð áhersla á að bæta skipulag við innkaup og vörudreifingu.

 

Úrgangur

Við leggjum áherslu á að draga úr úrgangsmyndum en jafnframt að auka endurvinnslu frá starfseminni með því að bæta meðhöndlun, flokkun og skil. Við viljum efla og styðja hringrásarhagkerfið. Við viljum draga úr umbúðanotkun viðskiptavina með því að bjóða þeim vistvænni lausnir.

 

Vistvæn innkaup

Við leggjum áherslu á vistvæn innkaup og að draga úr notkun á einnota vörum.

 

Samgöngur

Lögð er áhersla á að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum, lágmarka akstur og skipta yfir í vistvænar lausnir við endurnýjun bílaflotans.  Lögð er áhersla á að auka fjarfundamöguleika til að draga úr losun.  Starfsfólk er frætt um umhverfismál og hvatt til að tileinka sér vistvænan lífsstíl m.a. með því að bjóða upp á samgöngusamninga og aðgang að hleðslustöðvum eins og kostur er.

 

Rekstur húsnæðis

Við rekstur, hönnun og viðhald húsnæðis er tekið mið af vistvænum áherslum.

 

Vöruúrval

Við leitumst við að bjóða vörur sem framleiddar eru í sátt við samfélag og umhverfi og fræðum viðskiptavini okkar um slíka vöru.

 

Eftirfylgni

ÁTVR heldur Grænt bókhald og setur sér markmið varðandi þýðingarmestu umhverfisþætti. Loftslagsstefna ÁTVR er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af framkvæmdastjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu ÁTVR og í árs- og sjálfbærniskýrslu ÁTVR.

 

Stefnan er í gildi frá 1. janúar 2022

 

Sjá AÐGERÐARÁÆTLUN ÁTVR í umhverfis- og loftlagsmálum. Sjá aðgerðaráætlun einkasölu Norðurlandanna í loftlagsmálum.