Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Siðareglur

Reglum þessum er ætlað að skerpa á ábyrgð starfsfólks með það að markmiði að bæta starfsanda og ímynd fyrirtækisins og undirstrika mikilvægi þess að allir sem hagsmuna hafa að gæta, njóti sanngirni og jafnræðis í hvívetna.

SAMSKIPTI Á VINNUSTAÐ
• Starfsfólki ber að leiðbeina hvert öðru og miðla þekkingu. Jafnframt að temja sér gagnkvæma virðingu, lipurð, snyrtimennsku  og reglusemi í starfi. 
• Starfsfólk ÁTVR fer ekki í manngreinarálit vegna stéttar, stöðu, kynferðis eða annarra einstaklingsbundinna þátta.
• Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi er ekki liðið og ber að uppræta með öllum tiltækum ráðum ef þess verður vart.


JAFNRÆÐI
• Gæta skal sanngirni og réttsýni í samskiptum við önnur fyrirtæki eða stofnanir.
• Allir viðskiptavinir eiga rétt á sömu þjónustu eða upplýsingum vegna sambærilegra tilvika. 
• Starfsfólki er óheimilt að hampa tiltekinni vöru umfram aðra.  Þetta tekur þó ekki til málefnalegrar ráðgjafar miðað við gefnar forsendur.


TRÚNAÐUR
• Starfsfólk skal gæta fyllstu þagmælsku og trúnaðar gagnvart fyrirtækinu hvað varðar upplýsingar um málefni þess, samstarfsfólks og viðskiptavina.
• Öll trúnaðarskjöl skulu meðhöndluð  og varðveitt þannig að þau glatist ekki eða liggi óvarin.

• Starfsfólk skal í ræðu og riti taka skýrt fram hvort talað er fyrir hönd fyrirtækisins eða persónulegum skoðunum lýst og þess skal gætt að rýra ekki ímynd ÁTVR.
• Starfsfólki ber að upplýsa  yfirmann eða forstjóra um hvers konar sóun, svindl, misnotkun og hagsmunaárekstra sem tengjast fyrirtækinu á einhvern hátt.
• Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

 
KYNNINGAR og VIÐBURÐIR
• Starfsfólki er óheimilt að sjá um eða taka beinan þátt í hvers konar kynningum á þeim vörum sem fyrirtækið selur.
• Óheimilt er að taka þátt í boðsferðum eða öðrum boðum á vegum hagsmunaaðila.
• Birgjar hafa ekki heimild til að kynna vörur í Vínbúðum. Öll fræðsla til starfsfólks á vörum fyrirtækisins fer fram á vegum ÁTVR.

Framkvæmdastjórar eða forstjóri veita undanþágu frá þessum reglum ef við á.

GJAFIR
• Starfsfólki er óheimilt að þiggja gjafir eða aðra umbun frá birgjum, viðskiptavinum eða öðrum hagsmunaaðilum nema um sé að ræða jóla- eða áramótagjafir og verðmætið sé óverulegt. (sjá gæðahandbók)

Stefnan er í gildi frá 1. júní 2019