Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Siðareglur

Siðareglurnar eru leiðarvísi okkar í starfi. Markmið þeirra er að stuðla að góðum starfsanda og skýra ábyrgð starfsfólks. Reglurnar ná til alls starfsfólks og taka til allrar starfsemi fyrirtækisins, ferðalaga á vegum vinnu og viðburða starfsfólks. Þeim er einnig ætlað að undirstrika mikilvægi þess að allir hagsmunaaðilar njóti sanngirni og jafnræðis.

 

PERSÓNULEG HEGÐUN

 • Við leggjum okkar af mörkum við að skapa góða vinnustaðamenningu. Samskipti  okkar einkennast af jákvæðni, virðingu og trausti. Við erum kurteis og vingjarnleg, leiðbeinum hvert öðru og miðlum þekkingu.
 • Við mismunum ekki á grundvelli kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna eða annarra einstaklingsbundinna þátta.
 • Við líðum ekki einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi og erum á varðbergi gagnvart slíkri háttsemi. Ef þess verður vart tilkynnum við slíkt tafarlaust.
 • Í ræðu og riti skal taka skýrt fram hvort talað sé fyrir hönd ÁTVR eða verið að lýsa persónulegum skoðunum. Ávallt skal þess gætt að rýra ekki ímynd fyrirtækisins.

JAFNRÆÐI

 • Við erum sanngjörn og réttsýn í samskiptum við önnur fyrirtæki og stofnanir.
 • Við leggjum okkur fram um að veita öllum framúrskarandi þjónustu.  
 • Við gætum hlutleysis í þjónustu og mælum ekki með tiltekinni vöru umfram aðra. Við ráðgjöf veitum við viðskiptavinum val um fleiri en eina vörutegund eins og kostur er.  

 

TRÚNAÐUR

 • Við gætum fyllsta trúnaðar hvað varðar upplýsingar um starfsemi ÁTVR, samstarfsfólk og viðskiptavini.
 • Við virðum þagnarskyldu um trúnaðarupplýsingar, einnig eftir að látið er af störfum.
 • Við meðhöndlum og varðveitum öll trúnaðarskjöl þannig að þau glatist ekki eða liggi óvarin.
 • Við birtum ekki myndefni eða annað opinberlega sem getur valdið fyrirtækinu, samstarfsfólki eða viðskiptavinum skaða.

 

KYNNINGAR OG GJAFIR

 • Óheimilt er að sjá um eða taka beinan þátt í hvers konar kynningum á vörum sem fyrirtækið selur. Óheimilt er að taka þátt í boðsferðum eða öðrum boðum á vegum hagsmunaaðila.
 • Birgjar hafa ekki heimild til að kynna vörur í Vínbúðum. Öll fræðsla til starfsfólks á vörum fyrirtækisins fer fram á vegum ÁTVR. Forstjóri, aðstoðarforstjóri  eða framkvæmdastjórar veita undanþágu frá þessum reglum ef við á.
 • Óheimilt er að þiggja gjafir eða aðra umbun frá birgjum, viðskiptavinum eða öðrum hagsmunaaðilum. Undantekning eru jóla- eða áramótagjafir þar sem verðmætið er óverulegt og gjöfin er ætluð starfsstöðinni sem heild.

 

TILKYNNING  Á BROTUM OG VIÐURLÖG

 • Starfsfólki ber að upplýsa yfirmenn eða forstjóra um hvers konar brot á siðareglum og hagsmunaárekstra sem tengjast fyrirtækinu á einhvern hátt.
 • Alvarleg eða ítrekuð brot á siðareglum geta leitt til áminningar og eftir atvikum uppsagnar.

 

Siðareglurnar skulu kynntar starfsfólki við upphaf starfs.

Siðareglurnar gilda  frá 1. október 2023