Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Stefna stjórnvalda í áfengismálum

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Stefnan tekur jafnt til neyslu áfengis, ólöglegra vímuefna og misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum sem valda ávana og fíkn.

Skaðleg neysla áfengis og annarra vímugjafa hefur alvarleg áhrif á lýðheilsu og er einn af helstu áhættuþáttunum sem leiða til verri heilsu, ótímabærra dauðsfalla og þróunar langvinnra sjúkdóma. Í stefnunni er meðal annars bent á að staða Íslands sé með því besta sem þekkist í Evrópu og að heildarneysla áfengis sé undir meðaltali í Evrópu og megi ætla að aðhaldssöm stefna í þessum málum eigi þátt í þessum árangri. 

Yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020:

  • Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.
  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa.
  • Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Að tryggja aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggir á bestu þekkingu og kröfum um gæði.
  • Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Á grundvelli stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun til að vinna að settum markmiðum nýrrar stefnu um áfengis- og vímuvarnir.
 
Stefnuna í heild sinni má finna á vef Velferðarráðuneytisins