Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

ÁTVR fær samgönguviðurkenningu

18.09.2015

Dagur B. Eggertson borgarstjóri afhenti í gær (fimmtudag) samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu. ÁTVR fékk viðurkenningu fyrir að stuðla að vistvænum ferðamáta starfsmanna, en Reykjavíkurborg veitir árlega samgönguviðurkenningu í tengslum við evrópska samgönguviku. 

ÁTVR hefur lagt mikla áherslu á að breyta ferðavenjum starfsmanna í átt að vistvænni samgöngumátum. Á vinnustaðnum er hvatt til heilsueflingar með líkamsræktarstyrkjum og samgöngusamningum, en veturinn 2014 notuðu 44% starfsmanna einkabíl í ferðir til og frá vinnu. Á sumrin er hlutfall þeirra sem nota einkabíl enn lægra eða um 33%. Heilsufarsmælingar hafa verið gerðar reglubundið hjá ÁTVR og mælist heilsufar starfsmanna mun betra en meðaltal á landsvísu. Einnig hefur náðst góður árangur hjá starfsfólki við minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem fyrirtæki eða stofnanir hafa gripið til í þeim tilgangi að draga úr umferð á sínum vegum og einfalda starfsfólki að nýta sér virka samgöngumáta.