Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínbúðirnar fyrirmyndarstofnun 2022

17.02.2023

Niðurstaða í Stofnun ársins 2022 var kynnt í gær, fimmtudaginn 16. febrúar, og hlutu Vínbúðirnar titilinn fyrirmyndarstofnun ársins 2022. Titilinn hljóta fyrirtæki og stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim níu þáttum sem könnunin byggir á að mati starfsmanna. Könnunin náði til tæplega 40.000 starfsmanna á opinberum vinnumarkaði. Stærðarflokkarnir eru þrír og er Vínbúðin í flokki þeirra sem eru með 90 eða fleiri starfsmenn.
 
Í hverjum stærðarflokki hljóta efstu fimm stofnanirnar sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnanir. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er sigurvegari stórra stofnana, en Vínbúðirnar verma annað sætið í þeim flokki með heildareinkunnina 4,36 af 5 mögulegum. 
 
Öllu starfsfólki ÁTVR er boðið að taka þátt í könnuninni óháð stéttarfélagi. Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana.
 
Á vef Sameyki er hægt að kynna sér niðurstöðurnar nánar.

Á myndinni má sjá stollt og ánægt starfsfólk ÁTVR með viðurkenninguna.