Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vefverslun einkaaðila með áfengi leiðir af sér afnám einkaleyfis að mati ÁTVR

18.03.2022

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur skilað inn umsögn til Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á áfengislögum og telur að í því felist algjör stefnubreyting á áfengismálum á Íslandi og forsendubrest fyrir einkaleyfi ÁTVR.

Fyrirtækið segir í umsögn sinni að hornsteinn áfengisstefnu Íslendinga frá árinu 1922 hafi verið rekstur einkasölu með augljós lýðheilsu- og samfélagsrök, að takmarka aðgengi að áfengi og vinna þannig gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum. Fjölmargar rannsóknir og reynsla annarra þjóða sýni svart á hvítu að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu sem leiði til meiri samfélagsskaða. 

Frumvarp það sem nú liggi frammi þýði í raun að smásala áfengis sé gefin frjáls sem gangi gegn gildandi áfengisstefnu. Ekki sé hægt að leyfa frjálsa áfengissölu og á sama tíma halda því fram að ÁTVR hafi einkaleyfi til sölu.

Umsögn ÁTVR við fyrirliggjandi frumvarp fylgir hér með.