Tóbak

Í desember 2023 voru samþykkt lög nr. 110/2023 á Alþingi um breytingar á lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir. Lögin fela í sér innleiðingu á Evrópureglum og munu leiða til margvíslegra breytinga í viðskiptum með tóbaksvörur og jurtavörur til reykinga. 


Ný lög tóku gildi þann 11.janúar 2024 en nokkur ákvæði laganna öðlast gildi síðar. Er sá frestur ýmist til 6, 12, 16 eða 48 mánaða. Í lögunum er gert ráð fyrir að ráðherra setji nýjar reglugerðir sem kveða nánar á um ákveðna þætti og einnig má búast við að eldri reglugerðir kunni að breytast. 

 

Helstu dagsetningar

  • Júlí 2024  
    Frestur til að afhenda ÁTVR upplýsingar um vörur á markaði rennur út (6. gr. 1.mgr. b-liður)
     
  • Janúar 2025  
    Ákvæði um merkingar og umbúðir taka gildi (6. gr. d-liður)
     
  • Maí 2025  
    Ákvæði um rekjanleika, skráningu og öryggisþátt taka gildi (6 gr. e-, f- og g-liðir)
     
  • Janúar 2028
    Ákvæði um innihaldsefni og einkennandi bragð (m.a. mentol) taka gildi (6. gr. c-liður)

 

Rekjanleikakerfi 

Ein helsta breytingin sem verður með nýju lögunum er að allir einingapakkar tóbaksvöru sem seldir verða á Íslandi skulu merktir með einkvæmu auðkenni. Með því verður hægt að rekja feril vöru frá framleiðenda til fyrsta smásala. Þannig þurfa framleiðendur, innflytjendur, heildsalar,  flutningsaðilar og vöruhús að skanna inn og út vörur til staðfestingar á því hvaða vara er stödd á hvaða stað og hvenær. 
Fyrirkomulag rekjanleikakerfisins og hvernig það snýr að ÁTVR  verður kynnt nánar síðar en unnið er að undirbúningi fyrir uppsetningu kerfisins. 

 

Framkvæmd og eftirlit

ÁTVR hefur verið falið það hlutverk að annast framkvæmd og hafa eftirlit með  ákveðnum þáttum laganna. Má þar m.a. nefna skýrslugjöf um innihaldsefni og losun, einkennandi bragð, merkingu og umbúðir, rekjanleika, skráningu og öryggisþátt. 

Auk þess er tilgreint hvaða heimildir ÁTVR hefur til að sinna hlutverki sínu sem eftirlitsaðili en þar má nefna heimildir til að krefjast upplýsinga, skoða vörur og taka sýnishorn af vörum til rannsóknar. ÁTVR getur beitt áminningum og dagsektum vegna brota gegn reglum og látið innkalla vöru eða lagt bann við sölu ef slíkt er talið nauðsynlegt. Auk þess getur ÁTVR haldlagt og fargað vöru ef ástæða þykir til. Nýju lögin veita ÁTVR jafnframt heimild til að beita stjórnvaldssektum sem og heimild til gjaldtöku vegna ákveðinna verkefna. 

ÁTVR hvetur hagaðila til að kynna sér regluverkið vel. Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar eru sérstaklega hvattir til að hafa samband við sína birgja vegna breytinganna. Hlekki á helstu lög og reglur er að finna hér að neðan.

Frekari upplýsingar verða birtar á vefnum næstu vikur og mánuði.

 

Lög nr. 110/2023 um breytingu á lögum um tóbaksvarnir 

Lög nr. 6/2002 um tóbaksvarnir

Tilskipun 2014/40/ESB um framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum

Tilskipun 2014/109/ESB um myndaviðvaranir á tóbaksvörum

Handbók ESB fyrir hagaðila í evrópska rekjanleikakerfinu (á ensku)

Kynningarfundur 15.03.2024

Vænta má breytinga á reglum um viðvörunarmerkingar og útlit tóbaksvara. Unnið er að nýrri reglugerð þar að lútandi í Heilbrigðisráðuneytinu og ÁTVR mun birta reglugerðina tafarlaust þegar hún liggur fyrir. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á Evrópureglugerð, sem tekin hefur verið upp í EES samninginn, og geymir samantekt af myndaviðvörunum. Til að taka af allan vafa skal geta þess að síðastnefnd reglugerð, og myndaviðvaranirnar sem hún geymir, hefur ekki tekið gildi hérlendis.