Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Umhelling vína

Oftast er talað um að það séu tvær ástæður fyrir því að umhella víni. Annars vegar vegna þess að vínið er ungt og kröftugt og þarf af þeim sökum að ná að "rétta úr sér" eftir innilokun í flöskunni. Hins vegar er um að ræða eldri vín sem hafa þroskast og myndað botnfall í flöskunni.

Aðferðin við umhellinguna getur þá verið gjörólík, þ.e. unga vínið er gjarna látið gossa í karöfluna til að það taki í sig sem mest súrefni við umhellinguna, meðan eldra víninu er hellt varlega til að róta ekki upp botnfallinu, og að vínið haldist tært.

Við umhellingu á ungu víni skiptir karafflan ekki endilega höfuðmáli, heldur að vínið taki í sig súrefni við umhellinguna og þá er jafnvel hægt að hella víninu í könnu og aftur í flöskuna, ef kannan er ekki nógu flott.

Umhelling á eldri vínum krefst meiri varúðar, og betra er að hella víninu rólega og mikilvægt er að öllu víninu sé hellt í einu, því ef flaskan er lögð niður í miðju kafi er hætta á að gruggið blandist víninu. Gott er að láta ljós skína upp í gegnum flöskuna, til að sjá þegar gruggið byrjar að renna fram, og best er að hætta að hella.