Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Hvernig glös notum við undir vín?

 

AÐ VELJA GLÖSIN

Þegar við veljum okkur vínglös er fyrsta reglan sú að velja glös sem eru gerð úr algerlega gegnsæju gleri og án alls skrauts. Þetta er nauðsynlegt til þess geta skoðað vínið vandlega og stuðlar einnig að því að vínið njóti sín til fulls.

Fyrsta skrefið í að meta gæði vína er að skoða lit þeirra í glasinu. Litur vínsins getur strax gefið til kynna hvort um er að ræða ungt eða þroskað gamalt vín. Einnig hafa ákveðnar þrúgutegundir sérstakan lit og þá hægt að þekkja þær í glasinu. Vínglös eiga alls ekki að vera úr lituðu gleri né glannalega skreytt, einnig eru mikið útskorin kristalsglös ekki æskileg þar sem að vínið fær þá ekki að njóta sín. En það er líka annað atriði við hin mikið útskornu glös sem gerir þau óhentug en það er stærð þeirra. Mikið útskorin kristalsglös eru venjulega of lítil til þess að gagnast sem góð vínglös.

Þá komum við einmitt að reglu númer tvö við glasakaup, en hún er sú að gæta þess að velja nógu stór glös. Vínglas þarf að vera nógu stórt til þess að hægt sé að hella vænum skammti af víni í það án þess að fylla það svo mikið að ekki sé hægt að þyrla víninu í glasinu. Stór vínglös virka líka sem nokkurskonar karafla fyrir vínið þar sem að þau orsaka meira yfir-borð á víninu, heldur en minni glös. Mikið yfirborð í vínglasinu tryggir að vínið mýkist í glasinu og gefur frá sér meiri ilm og meiri mýkt í bragði, þegar vínið kemst í snertingu við súrefni. Stór glös geta því hjálpað ungu hráu víni til þess að verða aðgengilegra. Ilm vínsins má síðan auka enn meira með því að þyrla víninu upp á glashliðarnar. Sem betur fer er liðin sú tíð að veitingastaðir voru með pínulítil kúlulaga vínglös og þau fyllt af víni næstum að brún glassins. Slík glös og slíkt magn víns í glasinu gerði athöfnina að drekka vín ekki nærri eins skemmtilega og þegar almennileg glös eru í boði.

Vínglös

Þriðja reglan er að velja skal glös sem eru á fæti, eða standa á stilk. Stilkurinn gerir það að verkum að hægt er að halda á glasinu án þess að koma við belginn sjálfan og þar af leiðandi koma í veg fyrir að belgur glassins verði allur útataður í fingraförum. Fingraförin á glasbelgnum fara fljótt að skyggja á vínið, sem við erum alltaf að hugsa um að fái að njóta sín sem best. Einnig eru vínglös hönnuð með þennan fót eða stilk til þess að hendur okkar skili ekki líkamshitanum í vín sem búið er að hafa fyrir að kæla til þess að það njóti sín sem best. Það er líka eftirtektarvert að á öllum stærri vínsýningum og í vínsmakki þar sem atvinnumenn koma saman þá halda allir slíkir um annaðhvort stilk glassins eða um fót þess.

Í fjórða lagi er síðan að gæta þess að glösin séu af réttri lögun. Þar er átt við að gæta þess að belgur glassins sveigi inn að ofan. Þetta tryggir að belgurinn safnar ilmi vínsins að nefi neytandans. Glös sem sveigja út að ofan skila ekki jafn miklum ilmi vegna þess að ilmurinn sleppur út í andrúmsloftið framhjá nefi þess sem er að drekka vínið. Reyndur vínsmakkari þyrlar líka víninu upp á glashliðarnar og mun minni hætta er á að vínið sullist út úr glasinu ef það sveigir inn að ofan.


GLASASAFNIÐ

Til eru framleiðendur er framleiða sérstök glös fyrir hverja tegund víns. Slík hönnun getur farið út í öfgar og það er algerlega óhugsandi að venjulegt heimili fólks hafi yfir slíkri vörulínu að ráða. En það eru nokkur glös sem eru nauðsynleg. Í fyrsta lagi eru það glös undir hvítt og rautt vín. Þá er það venjan að hvítvínsglasið er heldur belgminna heldur en glasið undir rauðvínið.

Einnig er gaman að eiga freyðivínsglös og þá þau sem eru eins og flautulaga. Þessi glös sem eru há og mjó tryggja að freyðivínið heldur freyðingunni betur. Áður fyrr voru hin dæmigerðu kampavíns- eða freyðivínsglös flatar skálar, en það gerir það að verkum að freyðingin sleppur auðveldlega úr víninu. Auk þess var alltaf erfitt að drekka kampavín úr slíku glasi þar sem að þegar maður bar glasið upp að munni sér, þá vildi hin hárfína freyðing vínanna senda nokkrar kitlandi loftbólur í átt að nefinu, sem gat endað með léttum hnerra ofan í vínið. Það var kannski kostur að nota slík glös þar sem að með góðum hnerra voru líkur á því að glasið tæmdist án þess að vínið færi niður í háls neytandans. Þetta eru helstu glösin, en einnig er skemmtilegt að geta stillt upp sætvínsglösum, eða glösum undir desertvín. Slík glös eru gjarnan smækkuð útgáfa af hvítvínsglasinu þ.e.a.s. enn belgminni glös en hvítvínsglasið. Að síðustu er það síðan glas undir brenndu vínin sem gjarnan er boðið upp á að lokinni máltíðinni. Þá erum við að tala um glas sem gæti gengið sem ílát undir koníak, armagnak,calvados, grappa eða einhverskonar “eau du vie”.

Fyrst á dagskrá er því að eignast sitthvort glasið undir hvítt og rautt ásamt því að fjárfesta í flautulaga kampavínsglasi. Maður þarf ekkert meira til þess að byrja með. Sætvínsglasið og glasið undir brenndu vínin geta svo komið seinna meir. Öll þessi glös hef ég séð í verslunum hér á landi og ég veit til þess að nokkrir innflytjendur eru að flytja inn hágæða kristalsvínglös. Það er því hægt að finna öll þessi hárréttu glös í verslunum hér og allt frá frægasta framleiðanda til þess sem minna er þekktur. Það er hins vegar rétt að geta þess að mestu gæðin eru í kristalsglösunum og þá einnig þeim sem eru gerð úr sem þynnstu gleri og ekki með neina styrkingu í glasbarminum. Það er ekki eins mikil upplifun að drekka vín úr glasi sem er með hnausþykkan glasbarminn vegna styrkingar á glerinu, eins og að drekka úr hágæða næfurþunnum kristalsglösum.


AÐ HREINSA GLÖSIN

Að lokum er rétt að renna aðeins yfir það hvernig á svo að umgangast hágæða glös. Það eru vissulega deildar meiningar um það hvernig á að hreinsa glösin eftir notkun. Gætið þess bara að gera það fljótlega eftir notkun þar sem að vínið getur skilið eftir rendur á glashliðunum. Skiptar skoðanir eru á því hvort að nota á eingöngu heitt vatn til þess að þrífa vínglös, eða hvort að óhætt sé að nota þvottalög á þau. Ég er alveg til í að nota sápur á glösin til þess að auðvelda þrif og fá glösin skínandi skær og glær. Gætið þess bara að skola glösin mjög vel úr miklu magni af frekar heitu vatni. Látið þau síðan standa á hvolfi og látið þau þornaþannig. Í lokin má síðan strjúka síðustu dropana af börmum glasanna með hreinum mjúkum klút.

 

Gissur Kristinsson, vínsérfræðingur

(úr Vínblaðinu, 3.tbl.6.árg.)