Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Fróðleiksmoli um vodka

Upphaflega var vodka landi Austur-Evrópubúa, þ.e. sá drykkur sem bændur eimuðu úr tiltæku hráefni. Helst var notast við rúg, en fátækari bændur þurftu að nota kartöflur. Vel gert vodka var hreint og bragðlaust, en oft þurfti að krydda það eða bragðbæta.

Vodka eins og við þekkjum það í dag, er yfirleitt hreinn og bragðlítill drykkur, gerður m.a. með það fyrir augum að henta vel í ýmiss konar blöndur, án þess að leggja til mikið af eigin karakter.

Í vodka er notaður mjög hreinn spíri, sem hefur lítið bragð. Þrátt fyrir það skiptir hráefnið sem er notað við framleiðslu spírans máli. Hægt er að eima vodka úr korni, kartöflum eða mólassa (hrásykursýrópi). Rúgur er mikið notaður í Austur-Evrópu og Rússlandi. Rúgur ljær vodkanu mýkt og sætuvott. Hveiti er algengara í Ameríku og Vestur-Evrópu. Vodka úr hveiti er mjög hlutlaust og hreint. Kartöflur voru helst notaðar ef ekki var völ á korni. Vodka úr kartöflum er þyngra og bragðmeira. Mólassavodka líkist hveitivodka í hreinleika, en er örlítið sætara.

Vatn er yfirleitt um 60% af rúmmáli vodka. Best er þegar notað er vatn sem er hreint og mjúkt, og ber ekki í sér nein efni sem geta haft áhrif á bragð eða útlit vodkans. Samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins er lágmarksstyrkleiki á vodka 37,5% vínandi miðað við rúmmál.