Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Umhverfisáhrif áfengra drykkja

01.06.2017

Frá árinu 2015 hafa áfengiseinkasölurnar á Norðurlöndum unnið að því að greina umhverfisáhrif vörusafnsins. Danska fyrirtækið 2.-0 LCA consultants vann verkið og byggði vinnuna á gagnagrunninum EXIOBASE 3.3.5, sem er nýjasti og fullbúnasti gagnabanki sem til er yfir hnattræn umhverfisáhrif af völdum framleiðslu, og áhrifamats-aðferðarinnar Stepwise2006 sem gerir kleift að umbreyta öllum umhverfisáhrifum í mynteiningar. 

Niðurstaðan

Myndin hér fyrir neðan sýnir að tvö umhverfisatriði valda 86% af heildaráhrifum vegna framleiðslu og neyslu á víni, bjór og öðrum áfengum drykkjum:

  • Áhrif á öndunarfæri (vegna innöndunar á menguðu lofti)
  • Hnattræn hlýnun (vegna gróðurhúsalofttegunda, veldur einkum fækkun tegunda)

Öll önnur umhverfisáhrif falla í skuggann af þessum tveimur áhrifum. Umrædd áhrif eru aðallega af völdum brennslu eldsneytis til orkuframleiðslu. 

 

Tvö umhverfisatriði valda 86% af heildaráhrifum vegna framleiðslu og neyslu á víni, bjór og öðrum áfengum drykkjum:

Helstu leiðir til úrbóta

Umbúðir um vöruna skilja eftir stærsta sótsporið og vegur þar glerið mest. Glerflöskur eru þungar og framleiðsla á þeim þarfnast mun meiri orku en framleiðsla umbúða úr pappír, plasti eða áli.  Skoða skal val á efni sem notað er (PET, ál, drykkjakassi, gler, poki í kassa) og þyngd einstakra umbúða.

Áhersla á stýringu eldsneytisnotkunar og losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.

Í orkunotkun eru frávík sem benda til möguleika á úrbótum. Einnig er áhugavert að skoða hvort hægt sé að auka landbúnaðarafrakstur án þess að skerða gæði.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu hafa áhrif á stefnu í umhverfismálum hjá ÁTVR næstu árin og byggir sú vinna mikið á samtali við aðila í virðiskeðjunni, frá framleiðendum til viðskiptavina.

Skýrslan í heild sinni, ásamt nákvæmum lýsingum á gögnum og aðferðum, er aðgengileg öllum hér og er á ensku. Einnig er stutt samantekt á íslensku og ensku.

 

Umhverfisáhrif áfengra drykkja - skoða nánar

 

 

Ábyrg neysla, verndum jarðarinnar, líf undir vatni

Efni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, m.a. um ábyrga neyslu, verndun jarðarinnar og líf undir vatni.