Í hillum Vínbúðanna finnur þú úrval af vottuðum vörum. Markmið með vottun vara er að vernda líffræðilega fjölbreytni og heilbrigði jarðvegs, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja góð vinnuskilyrði. Óháðir eftirlitsaðilar votta að framleiðslan sé í samræmi við kröfur og er vottunin góð vörn gegn grænþvotti.
Flokkarnir eru:

- SJÁLFBÆRT
Stuðlað er að sjálfbærri þróun við ræktun og framleiðslu, t.d. með því að draga úr notkun skordýraeiturs, tilbúins áburðar, vatns og orku og tryggja góð vinnuskilyrði.
- SANNGJARNT
Samvinnufélag smábænda sér til þess að framleiðendur greiði vinnufólki sanngjörn laun og tryggi heilbrigt starfsumhverfi.
- LÍFRÆNT
Gert úr hráefnum sem uppfylla reglur lífrænnar ræktunar. Eingöngu má nota lífrænan áburð og notkun eiturefna er bönnuð.
- BÍÓDÍNAMÍSKT
Lífræn ræktun samkvæmt kenningum sem miða að sem mestu jafnvægi milli vínviðar og náttúru.
Aðrir flokkar, sem eru merktir í hillum Vínbúðanna eru:
- VEGAN
Margir vínframleiðendur nota dýraafurðir eins og eggjahvítu, mjólkurprótín eða gelatín til að sía vínið áður en því er tappað á flöskur. Vegan vín eru hins vegar síuð með steinefnum eins og bentónít eða kaólín og henta því fólki sem neytir ekki dýraafurða.
- NÁTTÚRUVÍN
Engin ein skilgreining á náttúruvínum er til en almennt er átt við vín sem framleidd eru með aðferðum sem tíðkuðust fyrir daga hjálparefna og tæknilausna. Vínin
eru gerð úr berjum sem eru ræktuð án eiturefna, ekkert tilbúið ger er notað og rotvarnarefnum sleppt eða þau notuð mjög sparlega. Náttúruvín eru oft sýrurík, geta
verið skýjuð og oft lítillega freyðandi.
- GLÚTENLAUST
Glúten er prótín sem finnst í miklu magni í m.a. hveiti, rúgmjöli og byggi. Gerjaðar vörur úr þessum korntegundum innihalda því glúten. Ef glúten er undir 20 mg í lítra má merkja vöru sem glútenlausa.
Vörurnar eru merktar með viðeigandi merki og lit í hillum Vínbúðanna og ætti að vera auðvelt að finna. Einnig er alltaf hægt að sjá vöruúrvalið á vinbudin.is og í hvaða Vínbúðum varan fæst hverju sinni. Þar er að auki hægt að finna flokka eins og Án viðbætts súlfíts og Kosher, en flokkana finnur þú í Vefbúðinni undir flipanum Sérmerking.