Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Staðreyndir um uppröðun og staðsetningu vöru í Vínbúðum

17.10.2014

Staðreyndir um uppröðun og staðsetningu vöru í VínbúðumÍ tilefni af hugleiðingu Pawels Bartoszek í Fréttablaðinu laugardaginn 11. október, meðal annars um uppröðun og staðsetningu vöru í Vínbúðum, vill ÁTVR benda á að við veitum fúslega upplýsingar um hvaða reglur gilda um uppröðun og staðsetningu vöru. 

 

Hjá ÁTVR gilda skýrar verklagsreglur varðandi uppröðun og staðsetningu á vörum í Vínbúðum og eru þær birtar birgjum á sérstöku vefsvæði. Reglunum er ætlað að tryggja jafnræði og hlutleysi í framsetningu vöru. Í meginatriðum er yfirflokkum raðað saman, til dæmis léttvínum, bjór o.s.frv. Við uppröðun á léttvíni er meginreglan sú að tegundum er raðað saman eftir löndum og innan hvers lands eftir verði.  Óháður aðili er fenginn til að teikna upp bjóruppröðun í öllum stærri Vínbúðum. Sú uppröðun byggir á sölu en þó þannig að sölulægri tegundum er yfirleitt tryggð meiri framsetning miðað við sölu, á kostnað hinna söluhærri. 

 

Eins og fram kemur hjá höfundi er bjór almennt hafður innst í Vínbúðum. Ástæðan er sú að bjór er seldur í miklu magni. Því er mikilvægt að staðsetja hann nálægt lagerrými. Það auðveldar alla vörumeðhöndlun og minnkar umferð á þungum brettum um Vínbúðina.  

 

Pawel fjallar í grein sinni um  misferli sem upp kom í Svíþjóð fyrir mörgum árum. Þrátt fyrir að hann setji varnagla er erfitt að skilja þá upprifjun öðruvísi en sem dylgjur um að spillingu sé að finna varðandi uppröðun og staðsetningu vöru í Vínbúðum. ÁTVR hefur lengi gert sér grein fyrir því að beita þarf öflugum vörnum gegn mögulegu misferli. Skýrar verklagsreglur og öflugt innra eftirlit er þar mikilvægt.  Slíkt vinnulag gildir og er stundað hjá ÁTVR.

 

ÁTVR virðir skoðanir þeirra sem vilja afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Við teljum jafnframt mikilvægt að umræður um einkasöluna séu málefnalegar og að þær séu byggðar á réttum upplýsingum. 

 

Hér má finna grein Pawels sem birtist í Fréttablaðinu 11.október 2014.