Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Saga ÁTVR

Rafræn útgáfa

Ágrip af sögu ÁTVR


Um síðustu aldamót var mikil þjóðernisvakning á Íslandi. Samfara þessari vakningu varð það almennt álit manna að áfengisneysla væri svo úr hófi að hún væri til hindrunar framfaramálum. Umræður um áfengisneysluna leiddu til þjóðaratkvæðagreiðslu um bann við framleiðslu, neyslu og innflutningi áfengis. Kom bannið til framkvæmda 1912. Banninu var aflétt að hluta til árið 1922. Þá þvinguðu Spánverjar Íslendinga til að kaupa vín frá Spáni í stað saltfisks, sem þeir keyptu frá Íslandi. Innflutningur var þá heimilaður á áfengi undir 21% að styrkleika. Öl var þó áfram bannað.

 

Áfengisverzlun ríkisins - ÁVR - var sett á laggirnar 1922. Fyrsti forstjóri verslunarinnar var skipaður í embætti 3. febrúar 1922 og hefur sá dagur verið talinn stofndagur. Tóbakseinkasala ríkisins tók til starfa 1932. Fyrirtækin voru sameinuð 1961 undir nafni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins - ÁTVR. Áfengisverzlunin hóf framleiðslu á áfengum drykkjum 1935, en hætti framleiðslu 1992. Þá voru framleiðslutækin seld einkafyrirtæki. Þekktasta tegundin var Brennivín, sem frá upphafi var kallað Svarti dauði. Eftir bjórsölubann frá 1912 hófst bjórsala aftur 1. mars 1989.

 

ÁTVR framleiðir neftóbak og hófst sú framleiðsla á stríðsárunum. Íslenskt neftóbak þykir mjög sérstakt í samanburði við annað tóbak sem þekkt er á heimsmarkaði. Aðferð við framleiðslu þess hefur nánast verið óbreytt í hálfa öld. Árið 1922 voru áfengisverslanir opnaðar í sjö kaupstöðum: Í Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri og Seyðisfirði. Um miðbik aldarinnar var verslunum í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Ísafirði og Akureyri lokað í samræmi við vilja meirihluta kjósenda og var svo í nokkur ár.

 

Til ársins 1987 fór öll afgreiðsla fram yfir borð en fyrsta sjálfsafgreiðsluverslunin opnaði í Kringlunni í ágúst það ár. í dag eru langflestar Vínbúðir sjálfsafgreiðslubúðir, eingöngu minnstu Vínbúðirnar eru með afgreiðslu yfir borð. Verslunum ÁTVR hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum áratugum og eru þær í dag 50 talsins. Á höfuðborgarsvæðinu eru Vínbúðirnar nú 13 og 37 í öðrum sveitarfélögum. Að auki er hægt að versla í vefbúð á vinbudin.is og fá vöruna senda í hvaða Vínbúð sem er án endurgjalds.