Það þarf varla að kynna humla til leiks fyrir þá sem hafa kafað ofan í bjórheiminn en fyrir hina, þá eru humlar eitt af fjórum nauðsynlegum hráefnum til bjórgerðar.
Humlar voru upphaflega notaðir fyrir bakteríuhamlandi (antiseptic) eiginleika sína. En svo vill það svo skemmtilega til að þeir ljá bjórum beiskleika og um leið ferskleika ásamt alls kyns bragðeinkennum.
Humlar eru klifurjurt sem getur teygt sig í allt frá 4,5 til sex metra hæð á vaxtartímabili. Þegar humlarnir eru uppskornir er öll plantan eða greinin skorin og humlarnir svo skildir frá greininni sjálfri í þar til gerðri vél. Þeir eru síðan þurrkaðir og svo er misjafnt hvort þeir séu geymdir þannig eða búnir til kögglar eða olíur sem hægt er að nota í bjórframleiðsluna.
Í bjórframleiðslunni er humlunum bætt út í kornvökva (e. Wort). Þessi kornvökvi er búinn til með því að leggja malað korn, sem oftast nær er bygg, í bleyti. Vökvinn er síaður frá hisminu og þá er hann tilbúinn til suðu. Það skiptir máli hvenær humlarnir eru settir út í þegar sætur kornvökvinn (e. Wort) er soðinn. Við upphaf suðu gefa þeir bjórnum beiskleika en sé þeim bætt út í við lokin ljá þeir bjórnum mismunandi bragðeinkenni.
Ótal tegundir humla eru til sem skila ólíkum bragðeinkennum af sér en flestir eru skilgreindir frá því landi eða svæði sem þeir eru frá, og bera mismunandi heiti.
Þeir humlar sem eru hvað þekktastir eru eftirfarandi:
- Bandarískir: Gefa af sér sítrus, steinávexti og greni eða trjákvoðu.
- Tékkneskir og þýskir: Gefa af sér fínlega kryddtóna, blómleg bragðeinkenni eða jurtakrydd eins og til dæmis pipar, hvít blóm og mintu.
- Breskir: Gefa af sér fínleg jurtakrydd, jarðartóna og ávaxtaeinkenni.
- Nýsjálenskir og ástralskir: Gefa af sér suðrænan ávöxt, sítrus og steinávexti.
Þó vissulega allir bjórar hafi eitthvert magn humla, þá eru nokkrir stílar þar sem þeir bjórar sýna hvað mestu humlaeinkenni. Listinn er ekki tæmandi.
Lagerbjórar
- Þýskir og tékkneskir pilsnerar
- Humlaður lager (e. Contemporary Hopped Lager)
Öl
- Bitter
- Altbier
- Amerískur Pale Ale
- Amerískt Amber Ale (Brúnöl)
- IPA (India Pale Ale)
- Amerískt IPA
- Double IPA
- Hazy IPA, Neipa (New England IPA)
- Aðrir

Berglind Helgadóttir DipWSET
Vínsérfræðingur