Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Grísk vín

Í Grikklandi hefur verið framleitt vín í að minnsta kosti 5000 ár, og jafnvel lengur segja sumir. Í hillum Vínbúðanna hefur úrvalið frá Grikklandi verið mjög misjafnt, en um þessar mundir má finna fjölmargar áhugaverðar vörur

En við hverju má svo búast við af grískum vínum? 

Grikkland hefur lengi vel verið þekkt fyrir Retsina vín sem rekja má til framleiðsluferlis Forn-Grikkja þegar trjákvoða furu var notuð til rotvarnar í vínum. Sú aðferð bætti bæði endinguna og einnig bragðeinkenni vínanna. Vínin eru enn í dag framleidd undir lögvernduðum merkjum. En það er ekki það eina sem kemur frá Grikklandi. 

Fyrir utan alþjóðlegu berjategundirnar Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah eru innlendu berjategundirnar mikilvægar í framleiðslu léttvína í Grikklandi.  

Af hvítu berjategundunum er þekktust Assyrtiko sem þykir gefa af sér vín sem eldast vel. Vínin sýna bragðeinkenni sítrus, steinávaxta og suðræns ávaxtar og í sumum tegundum má einnig finna steinefni. Þó berjategundin hafi upprunalega komið frá Santorini, þar sem hún er gjarna notuð í sætvínið Vinsanto, má hana finna víðsvegar annars staðar á meginlandi Grikklands. 

Af rauðu þrúgunum má helst nefna Agiorgitiko og Xinomavro. Agiorgitiko er mest ræktaða rauða berjategundin í Grikklandi og gefur af sér allt frá léttum og ávaxtaríkum vínum upp í kraftmikil og bragðgóð vín sem eldast vel og eru mörg hver jafnvel einnig eikarþroskuð. Einnig eru framleidd rósavín í góðum gæðum.  

Xinomavro er mest ræktuð í norðurhluta Grikklands en þekktustu vínin koma frá Naoussa. Rauðvín úr Xinomavro er oft líkt við norður ítölsku þrúguna Nebbiolo, því vínin eru ljós á litinn og frekar tannísk þegar þau eru ung. Þessi vín þykja því oft eldast vel og mynda flóknari bragðeinkenni með árunum.  

Það er um að gera að nýta leitarvél Vínbúðanna til að skoða úrvalið sem býðst, ekki aðeins í búðunum sjálfum heldur einnig í vefverslun og sérpöntunum

 


Berglind Helgadóttir DipWSET
Vínráðgjafi