Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Portvín fyrir hátíðina

Douro dalurinn í Portúgal dregur nafn sitt af samnefndri á sem rennur vestur yfir landamæri Spánar til Oporto þar sem áin mætir Atlantshafi.  Dalurinn er óumdeilanlega eitt fegursta vínræktarsvæði heims og bæði hann og borgin Oporto eru vernduð svæði á heimsminjaskrá UNESCO.
Douro dalurinn hefur undanfarinn áratug gefið af sér í síauknum mæli hágæða borðvín en frægustu vín svæðisins eru án nokkurs vafa hin stórkostlegu styrktu vín, portvínin.


Portvín eru í grunninn rauðvín, og í minna mæli hvítvín, sem hafa verið styrkt með hlutlausum þrúguspíra áður en gerjun lýkur svo vínið sem eftir stendur er bæði hærra að áfengisstyrk (kringum 20 % abv) og sætara en hefðbundið borðvín.

Helstu flokkar portvíns eru:


Ruby og Ruby Reserve
Ruby portvín draga nafn sitt af hinum ungæðislega rauðbláa lit vínsins og eru í flestum tilvikum nokkuð einföld, ljúffeng og ávaxtadrifin vín sem þroskuð hafa verið á tunnum í þrjú ár eða minna.  Ruby Reserve eru portvín sem hafa svipaðan karakter og Ruby en eru gerð úr betri þrúgum og eru stundum þroskuð aðeins lengur á tunnum og þar af leiðandi flóknari og nokkuð bragðmeiri en standard Ruby portvín.


Late Bottled Vintage (LBV)
LBV portvín eru árgangsportvín sem þroskast á tunnum í 4-6 ár fyrir átöppun.  Í þessi vín eru yfirleitt notaðar betri þrúgur en í Ruby Reserve og vínin gerð í nokkuð kröftugum stíl sem svipar til Vintage portvína en eru í flestum tilfellum lokuð með svokölluðum t-korki og tilbúin til drykkju um leið og þeim er átappað á flöskur.  Annar flokkur eru svo ófilteruð LBV.  Þau eru lokuð með venjulegum korki og eru ætluð til lengri geymslu á flösku.  Þessi vín innihalda ávallt botnfall sem er ekkert sem ber að varast, en getur getur verið gott að umhella varlega í karöflu fyrir neyslu.


Vintage Port
Frægustu, bestu og langlífustu portvínin.  Þessi vín koma úr bestu þrúgum dalsins og eyða tveimur árum á tunnum fyrir átöppun.  Mjög dökk, kröftug og mikil um sig í æsku og þola margra áratuga geymslu á flösku við réttar aðstæður.  


Tawny og Tawny með aldurstilgreiningu
Standard Tawny portvín eru portvín sem geymd hafa verið lengur en Ruby portvín á tunnum og hafa tekið á sig rauðbrúnan lit með árunum.  Raunin er þó sú að oft eru þessi vín ung Ruby vín sem eru blönduð hvítu portvíni til þess að virðast eldri en raun ber vitni.  Tawny með aldurstilgreiningu eru bestu og virtustu Tawny vínin.  Þau eru fáanleg í 10 ára, 20 ára, 30 ára og 40 ára útgáfum.  Aldurinn á flöskunum segir þó ekki til um yngsta vínið í blöndunni heldur er hér um að ræða meðalaldur vínsins.

Colheita
Hér er um að ræða tawny vín sem kemur frá einum árgangi.  Þessi vín þurfa samkvæmt lögum að þroskast á tunnu í 7 ár en eru oftast nær geymd mun lengur.  Tvær dagssetningar koma ávallt fram á Colheita flöskumiða; árgangsdagssetning og átöppunardagssetning.  Sú síðarnefnda skiptir þónokkru máli þar sem þessum vínum er ekki ætlað að þroskast á flöskunni í mörg ár eftir átöppun.

Portvín og matur
Portvín eru klassísk pörun með alls kyns eftirréttum en gott getur verið að miða við þá þumalputtareglu að rauð, ávaxtarík og kröftug portvín eins og Vintage, LBV og Ruby Reserve parast ákaflega vel með súkkulaðieftirréttum og flestum bragðmiklum ostum eins og Stilton, Roquefort eða geitaosti, en Tawny portvínin eru frábær með ljósari eftirréttum eða hnetum og þurrkuðum ávöxtum.  Þau virka að sjálfsögðu einnig með ostum, þá sér í lagi þroskuðum hörðum eða semi-hörðum ostum eins og Manchego, Grana Padano, Pecorino, Gouda eða Cheddar.
Áhugaverð og skemmtileg pörun er svo að para saman LBV, Ruby Reserve eða Vintage portvín með villlibráð eins og gæs eða hreindýri.


         Gleðilega hátíð!


Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi