Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Veitingar í brúðkaupsveisluna

Það er að mörgu að huga þegar halda á brúðkaupsveislu. Mjög mörgu. Sem betur fer eru fjölmiðlar duglegir að dæla út efni sem aðstoðar fólk við að skipuleggja veisluna. Og það er alltaf gott að fá aðstoð, sérstaklega ef maður er ekki excel sérfræðingur eða óvanur að skipuleggja með litakóðum. 

Margir vilja bjóða upp á áfengar veitingar í brúðkaupsveislunni, þó það sé alls engin skylda. Það er þannig með veitingarnar, eins og svo margt annað í tengslum við veisluna, að það er gott að huga að öllu tímanlega, bæði í vali á víni sem og kaupum, eða pöntun, á því. 

Flestir ákveða matseðilinn fyrst og velja svo vínið með matnum. Fyrir suma er valið einfalt en aðrir eru óákveðnari. Þá er gott að leita til starfsmanna Vínbúðanna með valið en við viljum benda sérstaklega á Veisluvínsþjónustuna okkar sem staðsett er í Heiðrúnu, Stuðlahálsi 2. Hægt er að hafa samband símleiðis í síma 560-7730, í gegnum tölvupóst veisluvin@vinbudin.is, eða einfaldlega mæta á staðinn og fá ráðgjöf. 

Magnið

Á vefsíðu Vínbúðanna er afar nytsamleg veislureiknivél, þar sem hægt er að leika sér með tölur - og nei, maður þarf heldur ekki að vera excel sérfræðingur til þess.
 Þegar verslað er fyrir fjölda manns þá ræður verðið svolítið ferðinni. Oft munar þó ekki miklu í verði að velja hentugra vín í stað þess að velja einungis það allra ódýrasta. Algengt er að taka heldur ríflegt magn því alltaf má skila því sem eftir stendur, að því gefnu að varan sé heil og að umbúðir séu órofnar. Bara að muna eftir nótunni því það auðveldar endurgreiðslu. 

Undanfarin ár hefur aukning orðið á óhefðbundnari brúðkaupsveislum, útilegur, sveita- og garðpartý og í sumum tilfellum eru veislugestir ekki endilega að fara heim til sín, eða eitthvað annað, eftir hátíðahöldin. Sé ætlunin að veita ekki áfengi fram eftir nóttu er ágætt að koma því til skila til boðsgesta í boðskortinu; til dæmis með því að segja að boðið verði upp á léttvín og bjór meðan á borðhaldi stendur. Áfengið þarf ekki endilega að fljóta þar til síðasti gestur hefur látið sjá í skósólana og gestgjafar þurfa ekki að vera feimnir við að veigarnar klárist þegar liðið er á veisluna. Fyrir þá sem vilja þó hafa bæði belti og axlabönd varðandi magn er gott ráð er að eiga smá auka magn afsíðis sem hægt er að tefla fram ef þurfa þykir.

Valið

Munið þið eftir munnstóra froskinum sem gekk um og spurði hvað öðrum fyndist best að borða? Það er þannig með áfengi í eigin veislu, það er langskemmtilegast að veita það sem manni sjálfum þykir gott. Vissulega er gott að velja vín sem henta í allan hópinn en mikilvægt er að minna sig líka á að mögulega er ekki hægt að gera öllum til geðs, þetta á jú að vera dagur brúðhjónanna. Gott er að huga að því í tíma hvaða tegundir bjóða eigi upp á, og ekki er verra að vera viss um að finnast þær góðar. 

  • Fordrykkur

Fordrykkur er í boði í flestum veislum og velja margir freyðivín umfram kampavín þar sem verðmunur er mikill. Frískara er að fá ósætt eða smásætt freyðivín fyrir matinn því það kemur munnvatnskirtlunum af stað. Fyrir þá sem vilja hafa fordrykkinn sætari er betra að velja hálfsætt en sætt, þó ekkert sé útilokað í þessum málum. 

Með matnum er algengast að boðið sé upp á hvítvín og rauðvín. Umfram léttvínið bjóða margir upp á bjór og aukist hefur að boðið sé upp á sídera eða gosblöndur og gildir þá sami útreikningur á magni og framreiðslu eins og um bjórinn. Betra er að kaupa minni einingar en stærri, því oft verða hálftómar umbúðir eftir og fer þá töluvert magn til spillis. Margir kjósa einnig að bjóða upp á glerflöskur til að spara glasanotkun. Ef framreiðslufólk hellir í glös er hægt að kaupa stærri einingar, því þá fer magnið síður til spillis. 

Margir vilja bjóða upp á sterkt áfengi eftir matinn, sumir í bolluformi, aðrir sem kokteil. Sem betur fer er nokkuð auðvelt að leita að uppskriftum á netinu, en það eru einnig þó nokkrar góðar uppskriftir að finna á Vínbúðavefnum. Gott er að blanda ,,djúsinn" fyrir veisluna og eiga svo bara eftir að hella gosinu út í. 

  • Eftirréttir

Þegar eftirréttir eru bornir fram getur verið góður kostur að bjóða uppá sætvín með. Þumalputtareglan er að nota sæt vín með sætu. Margar tegundir eru til, sæt hvítvín eru algengust en einnig eru styrkt vín notuð eins og portvín og sérrí. Skemmtilegt og frískandi er að bjóða uppá sæt freyðivín en þar eru til nokkrir góðir kostir.
 

  • Kaffi

Margir vilja bjóða uppá kaffi og koníak eða líkjör með kaffinu og ber þá að hafa í huga að 700 ml flaska gefur ríflega 23 einfalda en algengur skammtur er um 4.5 cl þannig að 70 cl flaska dugar fyrir ríflega 15 manns.


Hitastig

Kæling mikils magns áfengra drykkja getur reynst snúið ef ekki er stór kælir til staðar þar sem veislan er haldin. Við erum svo heppin að búa í þannig loftslagi að fyrir utan dyrnar er ákjósanlegt hitastig fyrir kælingu áfengis. Það þarf auðvitað bara að gæta að því að ekki komist hver sem er í kassana eða flöskurnar. Bali fullur af klaka og örlitlu vatni (vatnið er mikilvægt upp á að kælingin virki sem best) gerir einnig mikið gagn.  
 

Umbúðir

Sumir kjósa að kaupa vín í kassa, aðrir í flöskum. Ágætt er að hafa ákveðin atriði í huga varðandi umbúðirnar þegar velja á vín. Auðveldara er að flytja magnið í kassavínum og það er einnig auðveldara að ganga frá því þegar veigarnar er uppurnar - pressa kassann og setja í endurvinnslu og pokann á annan stað. Auðveldara er að opna kassann til að bera fram vínið. Sumum finnst þó fallegra að bera það fram í karöflum, heldur en kössunum sjálfum. Þegar kassi er opnaður eru í raun og veru fjórar flöskur opnaðar í einu. Gott er að hafa það í huga að opna ekki of margar einingar í einu, ef eitthvað skyldi ganga af og muna eftir því að láta þá sem vinna í veislunni vita af því. Það er leiðinlegt þegar búið er að opna kannski tíu flöskur sem lítið sem ekkert er tekið af, því vínið skemmist eftir 2-3 daga opið, kassarnir eitthvað lengur, og þá þarf að hella niður. Að sjálfsögðu er líka hægt að frysta og nýta vínið í matargerð og sporna þannig við matarsóun.

Flöskurnar taka meira pláss, bæði í flutningi og frágangi. Mörgum finnst fallegra að geta boðið upp á vín í flöskum og gestir geta áttað sig á því hvað er verið að bjóða þeim upp á. Stundum er líka uppáhaldsvínið bara til í flösku en ekki kassa. Ágætt er að hafa í huga að flöskur með korktappa í, þurfa á tappatogara að halda. En flöskur með skrúftappa er lítið mál að opna. 

Þegar kaupa á áfengi í miklu magni hugsa gestgjafar vitanlega um budduna, því krónurnar eru fljótar að hlaðast upp. Hægt er að bera saman lítraverð á áfengi, en verðið er á hillumiðanum neðst til hægri. En þannig er hægt að bera saman verð á flöskum og í kössum, sem er stundum kannski minni en margir halda.

Að endingu skiptir það svo auðvitað allra mestu máli að njóta dagsins og skapa minningar sem ylja um aldur og ævi.

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi

Júlíus Steinarsson vínráðgjafi
Júlíus Steinarsson
vínráðgjafi