Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Fordrykkir

Fordrykkir eru, eins og orðið sjálft gefur til kynna, drykkir sem oftast nær er boðið upp á fyrir máltíð. Eitt aðalmarkmiðið með að bjóða upp á slíka drykki er að auka matarlystina. Fordrykkir eru því oft drykkir í léttari kantinum, þó svo að vissulega megi bjóða upp á það sem gestgjafa líst best á. Stundum er samtímis boðið upp á litla smárétti eða fingramat. 

Fordrykki er hægt að draga í nokkra flokka; freyðivín, léttvín, bjór og svo annað sitt lítið af hverju, eða bland í poka, eins og væri hægt að kalla það. 

Freyðivín
Frískleg freyðivín eru alveg kjörin til að bjóða upp á í fordrykk þar sem fersk sýran og freyðingin koma munnvatnskirtlunum vel af stað. Freyðivín skiptast gróflega upp í tvo flokka þar sem aðferðin til að fá kolsýru í vínin stjórnar því hvaða bragðeinkenni eru ríkjandi í víninu, eins og fræðast má meira um í þessari grein. Þegar búið er að velja freyðivín sem falla að smekk bragðlaukanna er ágætt að hafa sætleika líka í huga, en hægt er að fá frá ósætum og upp í sæt freyðivín. Þau henta líka afar vel með ýmsum mat og mætti því einnig halda áfram með glasið með forréttinum. 

Með tiltölulega lítilli fyrirhöfn er hægt að breyta freyðivínsglasinu í kokteil en þannig er til dæmis hægt að bæta út í sólberjalíkjör, appelsínu- eða ferskjusafa og fá þannig meiri fjölbreytileika í drykkina. Ef tími gefst til þá skemmir heldur ekki fyrir að skreyta glösin til dæmis með ávöxtum sem eiga við, nú eða pensla hunangsrönd ská yfir glasið og raða fallega litríkum blómum yfir. 

Léttvín 
Best er að bjóða upp á léttvín sem eru í léttari, ferskari og ávaxtaríkari kantinum og forðast kröftug vín með eikarþroskun. 

Hvítvín 
Þegar kemur að hvítvíni er ágætt að velja vín sem hefur góða sýru sem bæðir lyftir víninu og kemur munnvatnskirtlunum af stað. Að öllu jöfnu eru mörg hvítvín sem geta fallið vel til að bjóða upp á í fordrykki en helst mætti nefna sýrurík og góð vín úr Riesling, til dæmis frá Þýskalandi eða Alsace. Sauvignon Blanc, til dæmis frá Nýja Sjálandi, eða franskur Sancerre á einnig vel við. Léttari og ferskari Chardonnay koma einnig vel til greina, til dæmis franskur Chablis. Hvítvín úr Pinot Grigio þrúgunni gætu einnig hentað og eins spænsk Verdejo. Svo er bara að velja landið og stílinn sem hentar smekk hvers og eins. 

Rauðvín 
Við val á rauðvíni er ágætt að skoða vín í léttari og ávaxtaríkari kantinum. Spænskar criönzur og léttari rauðvín frá Valpolicella og Toskana henta vel í fordrykki. Rauðvín úr Pinot Noir þrúgunni henta einnig mjög vel til fordrykkjar þar sem þau eru að öllu jöfnu í léttari kantinum, fínleg og hafa góða sýru. Svo hentar ítalskur Lambrusco vel sem fordrykkur og með léttum smáréttum eins og hráskinku, parmesan osti og balsamediki sem allt á uppruna sinn að rekja frá sömu slóðum.  
En það er einmitt gott að hafa í huga að ef boðið er upp á mat frá sérstökum svæðum eða landi, að skoða hvaða vín eru framleidd á sama stað, því matarhefðir og víngerð hafa haldist í hendur í gegnum árin.  Þá er einnig gott að hafa í huga að léttari rauðvín er ágætt að bera fram örlítið kæld, í kringum 12-14 gráður. 
 
Bjór 
Bjórinn fylgir sömu reglum og léttvínin, en yfirleitt er boðið upp á léttari bjórstíla í fordrykk eins og lager, hveitibjór og ýmsa IPA stíla. Þá getur einnig verið gaman að bjóða upp á belgískan Kriek sem er ekki aðeins skemmtilega súr á bragðið með áberandi kirsuberjabragði, heldur er hann líka fagurlega rauður.  
 
"Bland í poka"
Það er ótal margt sem hægt er að bjóða upp á sem fordrykk og skiptir smekkur hvers og eins máli þegar kemur að vali á tegund. Ef þið viljið ekki bjóða upp á freyðivín, léttvín eða bjór þá er vel hægt að töfra fram einfaldan kokteil, skella Vermút á klaka með appelsínusneið, eða bera fram kælt, ósætt sérrí eins og Fino eða Manzanilla sem parast vel með alls konar tapas réttum. 


Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi