Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Íslensk handverksbrugghús

Flóra íslenskra brugghúsa hefur verið í vexti undanfarin ár þar sem hvert brugghúsið á fætur öðru hefur skotið uppi kollinum. Þetta tengist bættri drykkjumenningu okkar Íslendinga og ánægjulegt er að sjá vinsældir handverksbjóra svokallaðra aukast með hverju árinu. Bjór er ekki bara bjór og loksins er farið að tala um þennan drykk með sama hætti og menn hafa gert um vín um aldaraðir. Gríðarlega breidd er að finna á milli bjórstíla og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, allt frá léttum og grösugum pilsner til kröftugra og svarbrúnna imperial stout bjóra. Einnig eru til bjórar sem brúa bilið á milli bjórs og víns með því að blanda þessum tveimur drykkjum saman, oft með frábærum árangri.


Ekki er ýkja langt síðan að fyrsta handverksbrugghúsið leit dagsins ljós, en það var árið 2006 á Árskógssandi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og eru nú starfandi 21 handverksbrugghús sem skráð eru í Samtök íslenskra handverksbrugghúsa og nokkur önnur eru í startholunum. Athyglisverð er sú staðreynd að mörg þessara brugghúsa eru staðsett á landsbyggðinni og njóta þau, eðlilega, gríðarlegs stuðnings sinnar heimabyggðar. Þau eru að finna, fyrir utan á Árskógssandi, í Borgarnesi, Breiðdalsvík, Egilsstöðum, Hólum í Hjaltadal, Húsavík, Hvalfirði, Hveragerði, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Selfossi, Siglufirði, Vestmannaeyjum og Vík í Mýrdal, ásamt sjö brugghúsum á höfuðborgarsvæðinu. 


En hvað þurfa brugghús að uppfylla til að geta skráð sig í samtökin?  Hér á eftir er vitnað í klausu úr stefnuskrá samtakanna:

Skilgreiningin að handverksbrugghúsi er að bandarískri fyrirmynd. Þrjú atriði einkenna handverksbrugghús: áhersla á gæði, stærð og sjálfstæði. Handverksbrugghús fara ótroðnar slóðir er kemur að hráefnum, en hafa gæði framleiðslu sinnar ávallt að leiðarljósi. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári. Að auki má framleiðandi sem ekki telst handverksbrugghús skv. skilgreiningu ekki eiga eða stýra meira en 25% í brugghúsi til að það uppfylli skilyrði samtakanna. 

Nánari skilgreiningu má finna á Facebook síðu samtakanna sem og lista yfir meðlimi þeirra.

Spennandi verður að sjá hvaða brugghús koma til með að bætast í hópinn á komandi árum. Eitt er víst, handverksbjór er ekki bóla sem mun springa heldur kominn til að vera.

 

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi