Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Að vera í viðskiptum

Um samskipti ÁTVR og birgja gildir reglugerð um vöruval, innkaup og sölu áfengis, nr. 1106/2015 með síðari breytingum. Nánari ákvæði um afhendingu og greiðslukjör eru í VII. kafla, ákvæði um verðbreytingar eu í VIII. kafla og ákvæði um vörubreytingar eru í II. kafla

Athugið að til að selja vöru þarf fyrst að gera stofnsamning við ÁTVR.
Sjá nánar: AÐ KOMAST Í VIÐSKIPTI

Sala nýrrar vöru í Vínbúðum 

Fyrsta pöntun 

Birgir getur vænst þess að fyrsta pöntun berist rúmri viku fyrir áætlað upphaf sölu. Við fyrstu pöntun er reynt að taka hæfilegt magn til þess að annars vegar fylla hillur þeirra vínbúða sem eru með vörur í reynslusölu og hins vegar til að mæta sölu fyrstu vikurnar. 

Mjög misjafnt er eftir verði og vöruflokkum hvað telst hæfilegt magn til fyrstu pöntunar en það gæti verið u.þ.b. 600 flöskur eða dósir af lagerbjór, 300 flöskur eða dósir af öðrum bjór, gosblöndum og síder, 60 flöskur af víni, 24 flöskur af styrktu víni og víni sem kostar yfir 3000 kr. flaskan, 16 stykki af kassavíni (BIB), 60 flöskur af sterku áfengi. Framhald pantana tekur mið af sölu og eftirspurn. 

 

Dreifing nýrrar vöru í reynslusölu 

Vörutegundir í söluflokknum reynsluflokki fá dreifingu í 4 verslanir ÁTVR. 

 

Afhending pantana til ÁTVR 

Hverja vörupöntun skal afhenda sérstaklega í vöruhús ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík. Þó getur ÁTVR við sérstakar aðstæður samið við birgja um afhendingu á vörum á öðrum dreifingarstað sem ÁTVR tilgreinir. Sé magn afhentrar vöru meira en sem svarar einu lagi á bretti skal varan afhent á EUR vörubretti. Andvirði vörubretta skal innifalið í vöruverði. 

Sjá nánar í 47. gr. reglugerðar um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi, nr. 1106/2015.

 

Greiðslukjör 

ÁTVR greiðir birgi fyrir mótteknar vörur á síðasta degi mánaðar eða á næsta vinnudegi ef greiðsludag ber upp á frídag. Þegar vara í reynslu- eða tímabilsflokki fellur úr vöruvali skal birgir taka til baka óseldar vörubirgðir og endurgreiða ÁTVR.  

 

Verðbreyting 

Birgjar geta að jafnaði tilkynnt verðbreytingar einu sinni í mánuði. Gildistaka miðast að jafnaði við fyrsta dag mánaðar og skulu breytingar tilkynntar á birgjavef eigi síðar en tuttugasta dag undangengins mánaðar. 

Verðbreytingar á vörum í eigu ÁTVR eru háðar samþykki ÁTVR. 

 

Vörubreytingar 

Ef vara breytist frá samþykktu sýnishorni þarf að fá samþykki ÁTVR fyrir breytingunni. Best er að sækja um vörubreytingu með tölvupósti til umsokn@vinbudin.is og senda jafnframt sýnishorn af hinu breytta útliti eða mynd eða próförk ef aðeins er um útlitsbreytingu að ræða. Berist ÁTVR breytt vara sem ekki hefur verið samþykkt getur móttöku verið hafnað eða tafir orðið meðan varan er skoðuð.  

Sérpöntun

Til að hægt sé að selja vöru í sérpöntun þarf fyrst að skrá vöruna hjá ÁTVR sem sérpöntunarvöru. Senda þarf umsókn og með umsókninni þarf annað hvort að afhenda ÁTVR sýnishorn (sem verður skilað að lokinni skoðun) eða senda ÁTVR skýrar og greinilegar myndir af vörunni (af báðum eða öllum hliðum) þannig að skoða megi hvort allar lögbundnar merkingar séu til staðar. Myndir má senda sem viðhengi með umsókn eða senda þær sér á umsokn@atvr.is. Ef myndir eru sendar í tölvupósti er nauðsynlegt að senda með númer umsóknarinnar (t.d. U12345), en það má sjá á umsóknaryfirliti á birgjavef.

Undanþága er veitt frá almennum reglum um greiðslu umsóknargjalds og afhendingu vöruvottunar.
Almennt má gera ráð fyrir að afgreiðsla á umsókn um sérpöntun taki eina viku frá móttöku myndar eða sýnishorns.

Nánari upplýsingar veitir umsokn@atvr.is

Vefbúð

Þegar vara hefur verið skráð hjá ÁTVR er hægt að velja að selja hana í Vefbúð.  Á umsjónarsvæði sérpantana á birgjavef er hægt að setja í Vefbúð vörur sem eru skráðar sem sérpöntun og vörur sem eru hættar í reynslusölu, en hafa verið í sölu í Vínbúðum á síðustu12 mánuðum.

Hægt er að setja inn upplýsingar um lágmarksmagn sem hægt er að panta í einu. Einnig er hægt að setja inn upplýsingar um birgðir sem eru fráteknar fyrir vefbúðarpantanir. Slíkt flýtir fyrir afgreiðslu pantana.