Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sala áfengis og tóbaks árið 2022

02.01.2023

Alls seldust rúmlega 24 milljón lítrar af áfengi í Vínbúðunum á árinu 2022. Til samanburðar var sala ársins 2021 rúmlega 26 milljón lítrar. Í heildina dróst salan saman um 8,4% á milli ára. Sala dróst saman í öllum helstu söluflokkum en mismikið eftir flokkum. Sala rauðvíns dróst saman um rúmlega 16% á meðan sala hvítvíns dróst saman um 9%. Mestur samdráttur er í sölu í flokknum aðrar bjórtegundir tæplega 23% en minnstur í sölu á síder og ávaxtavínum, tæplega 4%. Gera má ráð fyrir að ólíkar aðstæður í samfélaginu á samanburðarárunum skýri að einhverju leiti þennan samdrátt í sölu. 

Stærsta söluvika ársins var vikan fyrir verslunarmannahelgi en þá seldust 758 þúsund lítrar. Þar á eftir er vikan fyrir jól með 688 þúsund lítra sölu. Til samanburðar er meðal vikusala um 450 þúsund lítrar.
Viðskiptavinir voru 5,2 milljónir á árinu og fækkaði um 5,3% á milli ára. Flestir viðskiptavinir komu í Vínbúðina 30. desember eða 45.143 og þá voru líka flestir lítrar seldir á einum degi eða 269 þúsund lítrar.

Tóbak

Sala tóbaks dróst saman í öllum flokkum, mest í neftóbaki um tæp 24%. Samdráttur í sölu á sígarettum var tæplega 15% á árinu 2022 í samanburði við árið 2021.