Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Saga ÁTVR komin út

09.05.2018

Bókin um fyrstu 90 árin í sögu ÁTVR er nú komin út og er hún er bæði gefin út á prenti og á rafrænu formi. Höfundar bókarinnar eru þau Hildigunnur Ólafsdóttir, Sumarliði R. Ísleifsson og Sverrir Jakobsson.  Nokkrar tafir hafa orðið á útgáfunni frá upphaflegri áætlun m.a. var ákveðið að sagan spannaði 90 ára sögu ÁTVR til ársins 2012 og einnig reyndist tímafrekt að finna rétthafa myndanna sem birtast í bókinni. 

Ákvörðunin um ritun sögu ÁTVR var tekin í tíð fyrrverandi forstjóra en ÁTVR er meðal elstu og merkustu ríkisfyrirtækja landsins. Verslunin hefur alltaf starfað innan þröngs ramma og hefur orðið að aðlaga sig að breyttum tímum. Miklar breytingar hafa orðið á rekstri verslunarinnar frá því hún var stofnuð og með því að varpa sögulegu ljósi á breytingarnar má sjá hvernig þær tengjast breytingum á samfélaginu. Þannig er saga ÁTVR framlag til sögu lands og þjóðar. 

Rafrænu útgáfunni verður dreift ókeypis á vinbudin.is og á næstunni verður hægt að nálgast prentaða útgáfu á helstu bókasöfnum landsins.

Heildarkostnaður við ritun bókarinnar er um 22 milljónir króna.  Margt fyrrverandi starfsfólk ÁTVR lagði hönd á plóg við heimildaöflun, yfirlestur og fleira og gáfu þeir allir vinnu sína.  

Á næstu vikum fer bókin í almenna lausasölu hjá Pennanum.