Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Viljum við vodka í matvöruverslanir?

10.06.2004

Árlega gera Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) könnun á hvar "þjóðin" vill geta keypt létt vín og bjór. Í ár var niðurstaðan sú að 59,6% landsmanna voru fylgjandi því, að vara þessi fengist í matvöruverslunum. Fólk á aldrinum 16-75 ára tók þátt í könnuninni. Í fréttabréfi SVÞ segir að sambærileg könnun hafi verið gerð nokkrum sinnum áður og niðurstaðan alltaf sú sama.

Góður skilningur er á þeirri ósk matvörukaupmanna að fá að selja létt vín í matvöruverslunum. Ótvírætt gæti það bætt hag þeirra. Hins vegar er SVÞ fullljóst að 94,3% af því magni sem ÁTVR dreifir er létt vín og bjór. Aðeins 5,7% er sterkt áfengi. Vínbúðir ÁTVR yrðu aldrei reknar til að dreifa aðeins sterku áfengi og þær myndu aldrei dreifa léttu áfengi og bjór í samkeppni við einkaaðila. Spurningin á því að fjalla um, hvort selja eigi áfengi, óháð styrkleika, í almennum verslunum og leggja þar með niður vínbúðir í núverandi mynd.

Það er ekki eingöngu óraunhæf spurning sem er gagnrýni verð. Ekki síður vekur val þátttakenda í könnuninni furðu. Öllum er ljóst að lögaldur til áfengiskaupa og áfengisneyslu er 20 ár. Í fyrstu könnun SVÞ var hópur spurðra 20-75 ára. Næst var hópurinn 18-75 ára og nú er hópurinn 16-75 ára. Það geta allir getið sér til um, hvers vegna aldurshópurinn er teygður svo langt niður í aldri, að kallað er eftir áliti ósjálfráðra unglinga. Enginn utan SVÞ myndi þó telja könnun með aldurshóp 20-75 ára annars vegar og 16-75 ára hins vegar sambærilega.