Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

ÁTVR valin ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2004

11.05.2004

ÁTVR valin ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2004Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2004. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, afhenti Höskuldi Jónssyni, forstjóra ÁTVR sérstaka viðurkenningu af þessu tilefni í gær. Verðlaunagripinn, Vegvísinn, hannaði og smíðaði Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður. Fiskistofa  hlaut viðurkenningarskjal fyrir góðan árangur og Heilbrigðisstofnunin á Akranesi hlaut hvatningarviðurkenningu.

Fjármálaráðherra skipaði nefnd í janúar til að velja þá ríkisstofnun sem skarar fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu. Í nefndinni voru Hörður Sigurgestsson rekstrarhagfræðingur, Ásta Bjarnadóttir lektor við Háskólann í Reykjavík og Ragnheiður Halldórsdóttir formaður Stjórnvísi.

Óskað var eftir tilnefningum frá ráðuneytum auk þess sem ríkisstofnanir gátu sjálfar óskað eftir að verða tilnefndar. Nefndin fékk greinargerðir frá 15 stofnunum að þessu sinni. Þær voru metnar út frá því hversu skýr stefnumótun, framtíðarsýn og markmiðssetning stofnunarinnar er, hversu vel henni er fylgt eftir og hversu vel starfsmenn eru meðvitaðir um markmiðssetninguna. Einnig lagði nefndin áherslu á að stefnan beindist út á við og að stofnunin veiti notendum góða þjónustu.

Jafnframt var lögð áhersla á að stjórnendur skilji umhverfið sem stofnunin starfar í, átti sig á lykilþáttum í rekstri og sjái tækifæri til þess að bæta og efla þjónustu en einnig að hagræða í rekstri.

Þetta er í fimmta sinn sem ríkisstofnun til fyrirmyndar er valin en Orkustofnun varð fyrir valinu árið 2002, Landgræðsla ríkisins árið 2000, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi árið 1998 og Kvennaskólinn í Reykjavík árið 1996.