Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínbúðin Kringlunni 20 ára

14.08.2007

Áfengi í hillum og listaverk á veggjum- svo hljómaði fyrirsögn greinar um Vínbúðina Kringlunni sem birtist í Morgunblaðinu þann  8. ágúst 1987. Vínbúðin átti ásamt Kringlunni 20 ára afmæli mánudaginn 13. ágúst.

Kringlan 20 ára

Vínbúðin Kringlunni skipar sess í sögu ÁTVR. Vínbúðin var fyrsta sjálfsafgreiðsluverslunin en fram að því höfðu viðskiptavinir einungis getað verslað áfengi "yfir borðið" í þeim fjórum vínbúðum sem voru í Reykjavík. Það vakti því óneitanlega ánægju viðskiptavina að geta sjálfir gengið á milli hillna og valið það sem þeim leist best á.

Vínbúðin Kringlunni var fyrsta vínbúðin þar sem notaðir voru skannar og jafnframt fyrsta áfengisverslunin á Norðurlöndum sem tók slíkt kerfi upp eða eins og Morgunblaðið greindi frá í ágúst 1987: Afgreiðslukassar eru þarna líkt og í matvöruverslunum, alls sjö talsins. Þar verða s.k. strikamerkjalesarar (skannerar) sem lesa beint af verð vörunnar. Þetta er fyrsta áfengisverslunin á Norðurlöndum sem tekur upp slíkt kerfi. Svona kerfi er þó notað til dæmis í fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bjarni Þorsteinsson útsölustjóri sagði við Morgunblaðið að með þessari nýjung myndi afgreiðslan ganga mun hraðar og öruggar fyrir sig.

Það vakti jafnframt athygli að það voru ekki einungis áfengisflöskur sem prýddu hina nýju vínbúð heldur jafnframt 15 metra löng lágmynd eftir Steinunni Marteinsdóttur.  Listaverk í vínbúðum var nýbreytni og var Höskuldur Jónsson fyrrum forstjóri ÁTVR inntur eftir því hvort verslanir ÁTVR yrðu framvegis myndskreyttar. Ekki var þó um nýja stefnu hjá ÁTVR um að ræða heldur stefna ríkisins um að opinberar byggingar skyldu listskreyttar og listaverkið unnið fyrir framlag úr Listskreytingasjóði ríkisins.