Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Frá forstjóra

16.10.2007

Þessa dagana er til umræðu á Alþingi frumvarp sem beinist að því að fella niður einkaleyfi ÁTVR á sölu á léttvíni og bjór. Hlutverk ÁTVR er að starfa innan þess lagaumhverfis sem fyrirtækinu er búið og gera það eins vel unnt er. Hlutverk stjórnmálamanna á Alþingi er að móta lagarammann og þar með það lagaumhverfi sem ÁTVR býr við hverju sinni. ÁTVR tekur því ekki afstöðu til frumvarpsins sem slíks.

Í formála síðasta ársreiknings fjallaði forstjóri m.a. um sögu ÁTVR og ástæður þess að stofnuninni var komið á fót á sínum tíma. Auðvitað hefur ÁTVR þróast í tímans rás en rekstur stofnunarinnar endurspeglar að sjálfsögðu vilja löggjafans um aðhaldsama áfengisstefnu.  Formálinn er birtur hér á eftir til þess að lesendur geti glöggvað sig á því  fyrir hvað ÁTVR stendur og hvað sérfræðingar telja að felist í aðhaldssamri stjórnun áfengissölu.

Á árinu 2007 er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 85 ára. Við þau tímamót er við hæfi að rifja upp að ÁTVR á sér langa og merka sögu en vegna drykkjuvenja Íslendinga á árum áður voru ýmis úrræði reynd til þess að stilla áfengisneyslu í hóf, svo sem skömmtun, algjör lokun og loks undanþágur á stríðsárunum. Áfengisverslun ríkisins, ÁVR, tók til starfa árið 1922 en þá var losað um bann við innflutningi áfengis, sem gilt hafði frá 1. janúar 1912 og sölubann frá 1. janúar 1915. Árið 1961 var Áfengisverslunin sameinuð Tóbaksverslun ríkisins og ÁTVR varð til. Í upphafi var einungis léttvín á boðstólum, sterka áfengið kom í sölu árið 1935 og sala á bjórnum hófst árið 1989.

Á mynd 1 hér að neðan má sjá þróun í neyslu áfengis á Íslandi frá árinu 1987.

 Þróun áfengisverð´s umreiknað samkvæmt lánskjaravítölu

 

Dökkrauða línan sýnir markmið stjórnvalda eins og það er skilgreint í heilbrigðisáætlun Alþingis til ársins 2010 en það er við 5 lítra markið. Sjá má að síðustu árin eykst áfengisneyslan stöðugt og er nú komin í um 7,2 lítra á mann eldri en 15 ára og er það töluvert umfram markmiðið sem stjórnvöld settu sér. Svipaðar neyslutölur eru frá Noregi og Svíþjóð. Finnland sker sig nokkuð úr frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þar er neyslan komin yfir 12 lítra en áfengiseinkasalan í Finnlandi, ALKO, hefur gengið hvað lengst í að fjölga áfengisverslunum, lengja afgreiðslutíma og lækka verð.
Til samanburðar má nefna lönd eins og Danmörku og Írland þar sem sala á áfengi er frjáls. Þar er neyslan frá 13 til 14 lítrum af hreinu alkóhóli á mann eldri en 15 ára. Einnig má geta þess að í Rússlandi er neyslan um 18 lítrar. Það er mikil neysla og vandamálin tengd misnotkun á áfengi veruleg. Við eigum sem betur fer langt í land með að ná þessum nágrannalöndum okkar í neyslu á áfengi en þróunin á Íslandi veldur sérfræðingum í áfengismálum áhyggjum.

Að mati sérfræðinga felst kjarni aðhaldssamrar áfengisstefnu í að:

Nota sölukerfi sem ekki byggir á hefðbundinni hagnaðarkröfu einkarekstrar. Í því felst að seljendur áfengis mega ekki hafa persónulegan ávinning af sölunni. Persónulegur ávinningur er talinn leiða til aukinnar sölu.
Draga úr sölu með háu verði.
Takmarka aðgengi með því að hafa fáar verslanir sem selja áfengi og takmarka afgreiðslutíma þeirra.
Vinna að öflugu forvarnarstarfi ásamt því að hefta aðgengi unglinga að áfengi.
Stuðla að ábyrgri neyslu.
Framangreindir þættir, hver fyrir sig, hafa þau áhrif að draga úr heildarneyslunni og þar með skaðsemisáhrifunum. Í megindráttum er þetta það kerfi sem við búum við á Íslandi. En hvernig er þá hægt að skýra að þrátt fyrir aðhaldssama áfengisstefnu eykst neyslan stöðugt ár frá ári? Ef skoðaðar eru tölur frá Hagstofunni um þróun kaupmáttar má sjá að sterk fylgni er á milli áfengisneyslu og kaupgetu. Sjá mynd 2.

 

Þróun áfengisneyslu og kaupgetu 1995-2005

Af myndinni má sjá að þegar kaupgetan eykst þá eykst áfengisneyslan. Þegar þetta er skoðað í samhengi við þá þróun að raunverð á áfengi hefur líka farið lækkandi á undanförnum árum, sjá mynd 3, má segja að skýringin á söluaukningunni sé að einhverju leyti fram komin. Kaupgeta almennings er að aukast og raunverð hefur lækkað á sama tíma. Aukin kaupgeta og lækkandi raunverð á áfengi virðist þýða að áfengisneyslan eykst.

Neysla í alkóhólslítrum, 15 ára og eldri 

 

Verð á áfengi er öflugt stjórntæki til þess að stýra sölu. Í þessu sambandi má líta til reynslu Finna en Finnland lækkaði áfengisskattana hjá sér árið 2004 þegar Eistland fékk inngöngu í EU. Þar var áfengið miklu ódýrara en í Finnlandi og ætlun Finna var að jafna verðið þannig að heimamenn myndu ekki streyma til Eistlands í leit að ódýru áfengi. En hvaða afleiðingar hafði þetta? Heildarneyslan jókst verulega og skaðsemisáhrifin þar með. Aukningin t.d. í áfengistengdum dauðsföllum jókst um 30% fyrsta árið og 20% annað árið. Svipaða sögu má segja um öll önnur vandamál sem tengjast misnotkun áfengis. Finnar íhuga nú alvarlega að hækka skattana aftur til þess að reyna að draga úr heildarneyslunni en lexían var þeim dýr.

Áfengi er ein af fáum söluvörum þar sem rannsóknir sýna að sterkt samband er á milli heildarneyslu og þess skaða sem neyslan veldur í samfélaginu. Skv. nýlegum rannsóknum sem birtar voru í Lancet kom fram að áfengi er í fimmta sæti yfir hættulegustu vímuefni heims. Því er engin furða að stjórnvöld vilji stýra áfengissölunni með aðhaldssamri áfengisstefnu.

Lönd innan Evrópu eiga heimsmet í áfengisneyslu pr. íbúa. Hvergi í heiminum er drukkið eins mikið áfengi á mann. Áhyggjur sérfræðinga af þróun mála í þessum löndum fara vaxandi því neyslumynstrið er að þróast yfir í „binge drinking“ eða magndrykkju. Það þýðir að drukkið er mikið í einu til þess að verða ölvaður sem fyrst. Annað sem veldur sérfræðingum í áfengismálum áhyggjum er að sókn markaðsaflanna í ungt fólk hefur aldrei verið meiri en nú, t.d. eru framleiddir áfengir drykkir sem þeir telja að séu markaðssettir beint til unglinga. Sérfræðingar í áfengismálum innan WHO og Evrópusambandsins hafa miklar áhyggjur af þessari þróun en skoðun þeirra er sú að þar sem aðhaldssöm stjórnun er á sölu áfengis eigi skilyrðislaust að halda í slík kerfi og þar sem mest frjálsræði ríkir eigi að þrengja að. Þeir benda á að rannsóknir sýni einmitt að aðhaldssöm stjórnun áfengismála leiði beint til minni unglingadrykkju.

Nokkuð hefur verið rætt um að lækka áfengiskaupaaldur á Íslandi niður í 18 ár. Slíkt var gert t.d. í Bandaríkjunum og Nýja Sjálandi. Afleiðingarnar í Bandaríkjunum voru þær að neysla áfengis meðal unglinga jókst svo mikið með tilheyrandi skaðsemisáhrifum að breytingin var afturkölluð og nú er áfengiskaupaaldurinn þar alls staðar 21 ár. Svipað gerðist á Nýja Sjálandi þegar áfengiskaupaaldurinn var lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Þar eru umræður um að hækka hann aftur vegna slæmrar reynslu. Einnig hefur umræða orðið um hvort leyfa eigi sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum. Ef breytingarnar eiga sér stað eykst aðgengi að áfengi verulega og niðurstöður sérfræðinga benda til þess að heildarneysla á áfengi muni aukast.

Með rekstri verslunar eins og ÁTVR sýna stjórnvöld í verki að áfengi er ekki eins og hver önnur söluvara en áfengiseinkasölur í einhverju formi eru reknar víða. Öll Norðurlöndin nema Danmörk hafa slík sölukerfi. Í Bandaríkjunum eru einkasölur af fjölbreyttu tagi í 18 fylkjum af 50 og í Kanada í tólf fylkjum af þrettán. Í þessu sambandi má einnig geta þess að íslenskar reglur um áfengi og neyslu þess eru með þeim skilvirkustu í heimi að mati vísindamanna hjá læknaháskólanum í New York.

Þessu til viðbótar hefur ÁTVR á undanförnum árum skilgreint betur samfélagslega ábyrgð sína en hún kemur m.a. fram í eftirfarandi þáttum:

ÁTVR sinnir hlutverki sínu með eins lítið áberandi og fyrirferðarlitlum hætti og mögulegt er.

 ÁTVR tekur þátt í að byggja upp vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina um vín og tengingu matar og vína. 
ÁTVR fer í ýmsar herferðir þar sem samfélagsleg ábyrgð er í fyrirrúmi. Má nefna t.d. „Akstur og áfengi fara ekki saman“, „Ábyrgð gestgjafans“, og „Kaupum ekki áfengi fyrir unglinga“.
Strangt eftirlit er með aldri viðskiptavina.
Ábyrg starfsemi, t.d. engar söluhvetjandi aðgerðir. 
Samstarf við lögreglu og aðila sem vinna að forvörnum. Sérstök áhersla er á að torvelda aðgengi unglinga að áfengi.
Af ofangreindu má sjá að ÁTVR er falið ákaflega mikilvægt samfélagslegt hlutverk. Í dag er ÁTVR þjónustufyrirtæki sem byggir á samfélagslegum gildum. Engin söluhvetjandi starfsemi er stunduð né reynt að ýta vörum að viðskiptavinum í því skyni að fá þá til þess að kaupa meira. Lögð er áhersla á að vöruþekking starfsfólksins sé mikil og að viðskiptavinir fái notið úrvals þjónustu. Verslunin einbeitir sér einnig að því að bæta vínmenningu á Íslandi með því að vekja áhuga viðskiptavina á vönduðum vínum, tengja saman vín og mat og reyna þannig að draga úr magndrykkju. Allt þetta er gert í þeim tilgangi að minnka þá skaðsemi sem misnotkun áfengis hefur í för með sér í þjóðfélaginu.