Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Smáverslanir ÁTVR á landsbyggðinni

18.10.2007

Að undanförnu  hefur orðið nokkur umræða um rekstur smærri verslana ÁTVR á landsbyggðinni. Þess misskilnings hefur gætt í umræðunni að einkaaðilar reki vínbúðirnar. Það er alrangt. ÁTVR ber ábyrgð á og rekur allar vínbúðir á Íslandi óháð stærð og staðsetningu. Í hverri einustu verslun er starfsmaður ÁTVR sem ber ábyrgð á rekstrinum. Þetta gildir jafnt um stórar áfengisverslanir í þéttbýli og smáverslanir í dreifbýli. Einkaaðilar reka hvergi vínbúðir á sína ábyrgð.

Á árum áður rak ÁTVR engar smáverslanir á landsbyggðinni. Ekki þótti forsvaranlegt að leigja húsnæði og ráða starfsfólk á stöðum vegna lítillar sölu og hás kostnaðar.
Árið 1987 var reynd ný leið til þess að ná fram nægjanlegri hagkvæmni til þess að réttlæta opnun vínbúðar í smærra byggðarlagi. Fyrir valinu var Ólafsvík.

Aðferðinni sem beitt var fólst í því að ÁTVR tók á leigu lítið rými fyrir vínbúð sem var við hliðina á barnafataverslun. Að sjálfsögðu var verslunin sjálf algerlega aðskilin frá barnafataversluninni með sérstöku lyklakerfi en inngangur og baksvæði voru sameiginleg. ÁTVR réð verslunarstjóra og gerði samning við eiganda barnafataverslunarinnar um ýmsa þjónustu eins og rakið er hér að neðan.  Með þessari samvinnu náðist mikil  hagræðing.

Í samningi við þjónustuaðila fólst m.a. að þjónustuaðili tryggði verslunarstjóra ÁTVR aðgang að salernum, kaffistofu og annarri starfsmannaaðstöðu. ÁTVR þurfti því ekki að leggja í kostnað við að koma slíkri aðstöðu upp. Einnig sá þjónustuaðili um alla ræstingu og þrif. Í samningi var áskilið að þjónustuaðili veitti verslunarstjóra ÁTVR aðstoð við vörumóttöku, uppröðun í hillur og önnur störf tengd vínbúðinni ef verslunarstjóri þurfti á slíkri aðstoð að halda. Þjónustuaðili fékk fasta mánaðarlega greiðslu fyrir framlag sitt.

Þetta fyrirkomulag gafst svo vel að viðskiptalíkanið var þróað áfram og nú er svo komið að ÁTVR rekur 25 smáverslanir. Þær smæstu hafa einungis opið í eina klukkustund á dag. Grunnatriði þessa líkans eru ennþá þau sömu og í upphafi. ÁTVR ber ábyrgð á og rekur allar vínbúðirnar. Frá því er enginn afsláttur gefinn og einkaaðilar koma þar hvergi nærri.

Tilgangurinn með rekstri smáverslana er að auka þjónustuna í dreifbýli með sem mestri fjárhagslegri hagkvæmni þó salan sé lítil. Rekstur smáverslana hefur komið vel út fyrir ÁTVR og viðskiptavinir eru ánægðir með þá þjónustu sem þessar verslanir veita.


Ívar J. Arndal