Fréttir

Vínráðgjafar á ferðinni

06.10.2008

Vínráðgjafar Vínbúðanna eru sérmenntaðir til að veita viðskiptavinum faglegar ráðleggingar hvað varðar samspil víns og matar. Gaman getur verið að fá tillögur og hugmyndir fyrir næstu veislu eða bara fá aðstoð við að kynnast hinu mikla vöruúrvali sem í boði er í Vínbúðunum.

Vínráðgjafarnir eru einkenndir með svörtum, merktum svuntum.

Salan jókst fyrstu 9 mánuði ársins

03.10.2008

Sala í lítrum fyrstu 9 mánuði ársins jókst um 3,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Sala bjórs jókst um 3,7% á tímabilinu og rauðvíns um 3%. Sala á hvítvíni hefur hins vegar aukist verulega eða um 14,1%. Sala á ókrydduðu brennivíni og vodka eykst umfram meðaltal og er 6,6%.

Velta áfengis á tímabilinu var 12,6 milljarðar króna en var 11,4 milljarðar í fyrra og nemur aukningin 10,4% á milli ára.

Hvernig glös notum við undir vín?

02.10.2008

Þegar við veljum okkur vínglös er fyrsta reglan sú að velja glös sem eru gerð úr algerlega gegnsæju gleri og án alls skrauts. Þetta er nauðsynlegt til þess geta skoðað vínið vandlega og stuðlar einnig að því að vínið njóti sín til fulls. Fyrsta skrefið í að meta gæði vína er að skoða lit þeirra í glasinu...

Hvernig velur maður vín með mat svo vel fari?

23.09.2008

Til að þjálfa sig í að para saman vín og mat þá þarf stöðugt að smakka bæði vín og mat. Með tímanum og mikilli þjálfun getur vínþjónninn með nokkurri vissu sagt til um með hverskonar mat tiltekið vín hentar, aðeins með því að lesa á flöskumiðann. Eru þetta einhverjir töfrar, hrein snilligáfa eða bara einfaldar reglur sem styðjast má við og allir geta notað með því að prófa sig áfram?

Nýtt Vínblað komið út

08.09.2008

Nú er nýtt og spennandi Vínblað komið út. Að þessu sinni er blaðið með haustlegu ívafi og áhersla lögð á ber og osta. Páll vínráðgjafi er með fróðlega grein um hvernig megi para saman osta og vín svo vel fari, auk þess sem skemmtileg grein þar sem ráðleggingar vínþjóna um að velja rétta vínið með matnum vekur eflaust áhuga margra. Einnig er umfjöllun um hina víðsfrægu Októberfest, ráðleggingar um réttu glösin með víninu og grein um lífræna ræktun svo fátt eitt sé nefnt. Það er því ráð að skella sér í næstu Vínbúð og næla sér í glóðvolgt eintak af nýju Vínblaði!

Salan jókst fyrstu 8 mánuði ársins

04.09.2008

Sala í lítrum fyrstu 8 mánuði ársins jókst um 4,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Sala bjórs jókst um 3,8% á tímabilinu og rauðvíns um 3,2%. Sala á hvítvíni heldur áfram að aukast og er nú 15,4% meiri en í fyrra. Sala í ókrydduðu brennivíni og vodka eykst einnig umfram meðaltal og er 7%.

Velta áfengis á tímabilinu var 11,2 milljarðar króna en var 10,2 milljarðar í fyrra og nemur aukningin 10,5% á milli ára.

Ostaveisla í Vínbúðunum

01.09.2008

Í september er Ostaveisla í Vínbúðunum. Hægt er að nálgast frábærar uppskriftir með ostaívafi og upplýsingar um hvaða vín henta með. Einnig hefur verið gefinn út skemmtilegur bæklingur um osta og vín.

Ostar hafa náð miklum vinsældum, bæði sem hluti af máltíð og sem sjálfstæðir réttir, auk þess sem þeir eru mikið notaðir í matargerð, en ostabakkar eru einnig vinsælir. Sjaldgæft er að vín og ostar fari mjög illa saman, en þó eru ýmsar samsetningar sem ætti að forðast.

Einnig eru fróðlegar greinar um osta, vín og margt fleira í nýútgefnu Vínblaði sem fæst í næstu Vínbúð.

Ný Vínbúð í Skútuvogi

23.08.2008

Ný og glæsileg Vínbúð hefur nú verið opnuð í Skútuvogi 2. Verslunin er opin frá 9-20 alla virka daga og 11-18 á laugardögum. Skipulag Vínbúðarinnar er svipað og í Vínbúðinni Borgartúni, en allur bjór er afmarkaður í stórum kæli. Þannig fá viðskiptavinir meira næði til að skoða fjölbreytt úrval vína á meðan aðrir viðskiptavinir fá bjórinn sinn kaldan, en mikil eftirspurn hefur verið eftir þeirri þjónustu.

Nóg er af bílastæðum fyrir framan búðina og aðgengi viðskiptavina með besta móti.

3 nýir vínráðgjafar bætast í hópinn

13.08.2008

Í maí síðastliðnum var í annað sinn haldið próf á vegum WSET-skólans (Wine and Spirit Education Trust) á Íslandi. Vínbúðirnar eru samstarfsaðili skólans sem kemur að kennslu og prófum á því efni sem tekið er fyrir á sérfræðinganámskeiði Vínskólans sem rekinn er af Vínbúðunum.

Þrjár konur þreyttu erfitt próf og náðu því með góðum árangri. Viðskiptavinir Vínbúðanna geta nýtt sér þjónustu þeirra sem og annarra vínráðgjafa í Vínbúðum. Vínráðgjafarnir eru allir auðkenndir með svuntum, merktum með nafni.

Mikið verslað fyrir verslunarmannahelgina!

05.08.2008

Sala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 12,2% meiri í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári. Samtals seldust 783 þúsund lítrar af áfengi í ár en í sömu viku í fyrra seldust 698 þúsund lítrar.

Sambærileg aukning er í fjölda viðskiptavina en 127 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar í vikunni fyrir verslunarmannahelgina, en í sömu viku í fyrra komu 113 þúsund viðskiptavinir í Vínbúðirnar. Fjölgun viðskiptavina er því 12,1%...