Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Innréttingar í gömlu vínbúðinni á Seyðisfirði

14.12.2007

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hætti ÁTVR rekstri vínbúðar að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði um mitt ár 2004. Þegar ÁTVR hættir að nota eigið húsnæði er venjan sú að viðkomandi eign sé ráðstafað í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 84/2007 og fyrirmælum reglugerðar nr. 206/2003 um ráðstöfun eigna ríkisins. Fjármálaráðuneytið ákvað að láta húsið ekki fara í hefðbundna sölumeðferð heldur semja við Seyðisfjarðarbæ um að bærinn yfirtaki húsið.  Þeir samningar hafa nú staðið yfir í um þrjú og hálft ár. Af einhverjum ástæðum hafa þær viðræður  ekki skilað árangri og engin lausn var í sjónmáli. Innréttingarnar eru eign ÁTVR og órjúfanlegur hluti af sögu stofnunarinnar. Meðan húsinu og innréttingunum er ekki ráðstafað til annarra ber ÁTVR ábyrgðina á að varðveita innréttingarnar með tryggum hætti. Mat ÁTVR var einfaldlega það að ekki væri lengur forsvaranlegt að geyma innréttingarnar óvarðar í nánast ónýtu húsi.  Í samráði við fjármálaráðuneytið tók ÁTVR því þá ákvörðun að fjarlægja innréttingarnar.
Ákvörðunin um að hætta með vínbúðina í húsinu á sínum tíma var fyrst og fremst tekin af hagkvæmnisástæðum en  húsnæðið var alltof stórt og dýrt í rekstri miðað við umsvif. Einnig var húsið sjálft í mjög slæmu ásigkomulagi. Það er orðið gamalt og þarfnast sárlega viðhalds. Raflagnir og vatnslagnir gamlar og lélegar, gluggar ónýtir og ytra byrði hússins og þak lélegt. Frá því ÁTVR yfirgaf húsið hefur það grotnað enn frekar niður.
Að mati ÁTVR var alltaf nauðsynlegt að taka innréttingarnar úr húsinu meðan á uppgerð þess stendur.  Á árinu 2004 var kannað hjá Húsafriðunarnefnd ríkisins hvort húsið eða innréttingarnar væru friðaðar og hvort flytja mætti innréttingarnar úr húsinu. Í svarbréfi þeirra dags. 8. mars 2004 kemur m.a. fram að innréttingarnar væru ekki friðaðar og að heimilt sé að flytja innréttingarnar burtu. Ástæða þess að beðið var svona lengi með að flytja innréttingarnar á brott í öruggt skjól var að vonast var til að samningum fjármálaráðuneytis og heimamanna væri að ljúka.

Tilgangur ÁTVR með niðurtektinni var einungis sá að tryggja örugga varðveislu innréttinganna. Þær eru menningarsöguleg verðmæti sem ekki má geyma við ófullnægjandi og hættulegar aðstæður. ÁTVR hefur mikinn áhuga á að varðveita sögu fyrirtækisins sem er löng og merkileg og í því samhengi má nefna að um þessar  mundir er verið að rita sögu fyrirtækisins.

Fréttir í fjölmiðlum að geyma hafi átt innréttingar í gámi og að þær hafi orðið fyrir stjórtjóni við niðurtektina eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Eins og komið hefur fram hafa þær áður verið fluttar til, þeim hefur verið breytt og þær aðlagaðar að því húsnæði sem þær eru í hverju sinni. Eftir áratuga notkun á innréttingunum hjá ÁTVR sér auðvitað á þeim. Það er eðlilegt að innréttingar slitni og verði lúnar eftir langa notkun. Að hálfu ÁTVR hefur það alltaf legið fyrir að innréttingarnar verði gerðar upp af myndarskap og þeim komið í sýningarhæft ástand þegar endanlegur samastaður fyrir þær er fundinn. Með þeim hætti er þeim meiri sómi sýndur en að skilja þær eftir óvarðar í yfirgefnu og niðurníddu húsi.

Nú sem betur fer er komin hreyfing á málin og skv. upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er vonast til að samningum um framtíð húss og innréttinga ljúki fljótlega.