Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Helstu vínlöndin í lífrænni ræktun

Fremstir í flokki í lífrænni vínræktun hafa verið Þjóðverjar og Austurríkismenn, en aðrar þjóðir flykkjast nú í þennan hóp. Framleiðendur keppast nú við að snúa til betri vegar og fá garða sína vottaða fyrir lífræna ræktun, en þessi hópur hefur á síðustu árum aukist um tugi prósenta. Þessi gríðarlega aukni áhugi framleiðenda hefur leitt til þess að nú eru komin á markað mjög frambærileg vín sem eru vottuð lífræn. Eins og gengur og gerist voru þessi lífrænu vín ekki öll merkileg á árum áður, en með bættri tækni og aukinni þekkingu á hinu lífræna ferli hefur tekist að auka gæðin til muna.

Ekki má gleyma því að í áratugi, ef ekki árhundruð, hafa hágæða framleiðendur í Frakklandi unnið sín vín þannig að það er eins nálægt því að vera lífrænt og hægt er. Þeim framleiðendum þykir bara sjálfsagður hlutur að fikta ekki í hinu náttúrulega ferli. Þessir flottu framleiðendur í héruðum eins og Búrgund og Bordeaux hafa alla tíð unnið sín vín þannig að það sé alfarið náttúran sem hefur áhrif á vöxt og viðgang vínviðarins. Það er sennilega eingöngu í víngerðinni sjálfri sem vantar eitthvað upp á lífræna vottun. Aðallega mun það þó orsakast af því að súlfíti er bætt í vínin til þess að rotverja þau.

Í öllu víni er þó súlfít, en það er að finna í náttúrunni í vínberjunum. Það sem hins vegar er gert í víngerðinni er að vínin fá aukið magn viðbætt, til þess að tryggja að þau skemmist ekki og þoli lágmarks geymslu.